154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

fjarskipti o.fl.

205. mál
[14:16]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, lögum um íslensk landshöfuðlén og lögum um Fjarskiptastofu. Frumvarpið var áður flutt á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt með nokkrum breytingum. Breytingarnar fela í sér að fallið er frá tillögu um breytingu á lögum um fjarskipti sem varðar reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins sem kveður á um undanþágur frá reglum um fjarskiptaleynd til að gera rafrænum þjónustuaðilum tímabundið kleift, með sérhæfðum hugbúnaði, að vakta hvort umferð um þeirra kerfi innihaldi barnaníðsefni. Umrædd reglugerð Evrópuþingsins hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn og undanþágan sem um ræðir og beiting hennar er viðameiri en fyrra frumvarp gerði ráð fyrir og þykir því rétt að bíða með lögfestingu á henni. Með þessum breytingum er því 1. og 3. gr. fyrra frumvarps felldar brott. Aðrar breytingar sem gerðar hafa verið snerta umsagnir sem bárust við þinglega meðferð og rétt þykir að taka tillit til. Þannig er fallið frá því að skráningarupplýsingar um skráningu léna þurfi að innihalda símanúmer rétthafa og tæknilegs tengiliðs í breytingum á lögum um íslensk landshöfuðlén. Nægilegt sé að netfang rétthafa og tæknilegs tengiliðs séu gefin upp og ákvæði um það verði í einum staflið, d-lið, í 2. mgr. 9. gr. laganna, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Þá er fallið frá því að orðin „eftir því sem við á“ séu í frumvarpstextanum í nýjum málslið sem lagt er til að bætist við 5. mgr. 25. gr. laga um Fjarskiptastofu og varðar þagnarskyldu stofnunarinnar um gögn um fjarskiptaöryggi samkvæmt fjarskiptalögum og um starfsemi netöryggissveitar samkvæmt lögum um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.

Þar sem um er að ræða breytingu á þremur lögum er forsaga og undirbúningur frumvarpsins mismunandi. Bæði áformin um lagasetninguna og frumvarpið sjálft voru birt í samráðsgátt en breytingarnar eru settar fram af ólíkum ástæðum. Þannig snúa breytingar á fjarskiptalögum varðandi heildsöluaðgang að fjarskiptanetum að markmiðum laganna en ákvæði um þagnarskyldu Fjarskiptastofu varðar stjórnsýslu stofnunarinnar. Breytingar á lögum um íslensk landshöfuðlén eiga rætur í vinnu sem hefur átt sér stað til að mæta netglæpum. Ábendingar frá stjórnvöldum hér á landi hafa borist um nauðsyn þess að lögfesta lágmarksskráningarupplýsingar varðandi skráningu léna í rétthafaskrá sem ekki hafa verið tiltækar fram að þessu, auk upplýsingaskyldu skráningarstofu og skráningaraðila til tiltekinna stjórnvalda samkvæmt beiðni þeirra og skyldu sömu aðila til að aðstoða við rannsókn sakamála.

Virðulegi forseti. Fjarskipti gegna lykilhlutverki til að tryggja mikilvæga innviði samfélagsins og eru grundvöllur fyrir þjónustu á svo mörgum sviðum. Því er sérstaklega mikilvægt að huga að því að öll umgjörð fjarskipta sé eins og best verður á kosið. Þrátt fyrir að Ísland standi mjög framarlega í alþjóðlegum samanburði hvað varðar grunnlag fjarskipta, þ.e. gæði og fjölda háhraðanettenginga á landsvísu, er einnig mikilvægt að tryggja næsta lag, þ.e. öryggi fjarskiptanna, til að grunnvirki þeirra nýtist sem best. Nauðsynlegt er að hafa frumkvæði á þessu sviði til þess að halda í við tækniþróun og nýta þau tækifæri sem bjóðast til úrbóta. Í samræmi við þetta er þörf á nýju ákvæði í gildandi fjarskiptalögum um opinn aðgang að fjarskiptanetum sem hafa notið ríkisaðstoðar. Setja þarf ný viðmið um verðlagningu slíkra neta og mikilvægt er að veita Fjarskiptastofu heimild til að skera úr um ágreining varðandi verðlagningu þegar hann er til staðar. Jafnframt er lagt til að stofnunin fái heimild til að veita undanþágu frá kröfu um að heildsöluaðgangur skuli byggjast á verðsamanburði, ef fyrirhuguð nýting á fjarskiptanetinu mun ekki standa undir slíku heildsöluverði. Á þessu er tekið í 1. gr. frumvarpsins.

Virðulegur forseti. Með breytingunum sem eru lagðar til í frumvarpinu um lög um íslensk landshöfuðlén er markmiðið að auka getu til að sporna við netglæpum og auðvelda þar lögreglu og eftir atvikum þar til bærum stjórnvöldum að takast á við glæpi á netinu með því að skerpa á heimildum lögreglu og verklagsreglum um samskipti milli lögreglu og skráningarstofu íslenskra léna. Breytingunum er ætlað að mæta því. Það er skýrar vísað til hvaða brota á almennum hegningarlögum heimild til lokunar léna nær til samkvæmt lögunum, auk upplýsingaskyldu skráningarstofunnar og skráningaraðila til tiltekinna stjórnvalda samkvæmt beiðni þeirra og síðan skyldu sömu aðila til að aðstoða við rannsókn sakamála.

Í 2. gr. frumvarpsins er með ákveðnum hætti verið að styðja við þetta með tillögu um breytingu á 2. mgr. 9. gr. laga um íslensk landshöfuðlén. Þar er lagt til að auka kröfur um lágmarksskráningarupplýsingar til að gera það auðveldara að afla upplýsinga um ábyrgðaraðila tiltekinna léna í tengslum við rannsókn mála hjá lögreglu og öðrum stjórnvöldum. Ætlunin er að auðvelda lögreglu og eftir atvikum öðrum þar til bærum yfirvöldum að takast á við glæpi á netinu með því að skerpa á heimildum og verklagsreglum milli lögreglu og skráningarstofu íslenskra léna.

Í 3. gr. frumvarpsins er síðan lögð til breyting á b-lið 1. mgr. 11. gr. laganna sem varðar heimildir lögreglu til að krefjast þess, að undangengnum dómsúrskurði, að skráningarstofa loki léni sem skráð er undir íslensku landshöfuðléni í nánar tilgreindum tilvikum. Með breytingunni er í frumvarpinu vísað til efnis sem er til þess fallið að hvetja til eða stuðla að broti á almennum hegningarlögum sem varðað getur að lögum sex ára fangelsi eða miðlun efnis sem getur varðað við önnur hegningarlagaákvæði sem hafa lægri refsingu. Er upptalning ákvæða almennra hegningarlaga sett fram til að hægt sé að bregðast við stafrænu kynferðisofbeldi og hatursorðræðu. Með þessari breytingu er ætlunin að brot gegn persónulegum hagsmunum njóti ekki lakari verndar en t.d. brot gegn fjárhagslegum hagsmunum á borð við fjársvik og þjófnað.

Skilyrðið í b-lið um að ríkir almanna- eða einkahagsmunir þurfi að vera til staðar til að krafist verði lokunar léns er nýmæli í lögunum. Er skilyrðið sambærilegt því sem er að finna í ákvæði 83. gr. laga um meðferð sakamála er varðar stafrænar rannsóknarheimildir. Mat á því hvort að ríkir almanna- eða einkahagsmunir þurfi að vera staðar þarf ávallt að fara fram þegar krafist er lokunar léns en í lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er ekki vísað til opinberra mála lengur heldur sakamála og því er í b-lið 3. gr. frumvarpsins lagt til að vísað verði til rannsóknar sakamáls í stað opinbers máls.

Í 4. gr. frumvarpsins er síðan lagt til að lögfest verði ný grein, 11. gr. a, sem geymir þá heimild skráningarstofu til að veita lögreglu og héraðssaksóknara, netöryggissveitinni og Persónuvernd upplýsingar um rétthafa léns og tæknilegan tengilið þess. Mikilvægt er að skráningarstofa geti veitt löggæsluyfirvöldum þessar upplýsingar í tengslum við rannsókn sakamála, netöryggissveitinni í tengslum við greiningu netöryggisatvika og til að geta tekið á t.d. svikapóstsmálum, en Persónuvernd berast oft kvartanir á grundvelli persónuverndarlaga.

Virðulegi forseti. Í fjórða og síðasta lagi er í 5. gr. frumvarpsins að finna tillögu um breytingu á lögum um Fjarskiptastofu með því að lögfesta þagnarskyldu stofnunarinnar vegna gagna og upplýsinga um netöryggi á sviði fjarskipta. Þagnarskyldan varðar viðkvæm öryggisgögn og nauðsynlegt er að þau séu undanþegin upplýsingarétti almennings. Sambærilegt ákvæði er að finna í fjarskiptalögum og lögum um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða og það er óheppilegt að þagnarskyldan sé ekki til staðar í lögum um Fjarskiptastofu í tengslum við stjórnsýsluframkvæmd stofnunarinnar, en um er að ræða gögn sem teljast sérstaklega viðkvæm og mikilvæg í rekstri fjarskiptafyrirtækja.

Virðulegur forseti. Eins og heyra má af þessari yfirferð minni yfir ákvæði frumvarpsins eru hér á ferðinni breytingartillögur varðandi aðgengi að fjarskiptanetum og stjórnsýslu Fjarskiptastofu sem skipta máli. Það er mikilvægt að auka kröfur um lágmarksskráningarupplýsingar og skerpa á skyldu skráningarstofu og skráningaraðila að verða við tilmælum lögreglu um aðstoð. Þetta er gert til að leggja baráttunni gegn netglæpum lið. Ég trúi því að allir geti tekið undir slíkt og að nefndin skoði þetta mál að nýju eftir breytingar sem gerðar voru vegna athugasemda sem komu fram á síðasta löggjafarþingi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umræðu.