154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[14:40]
Horfa

Elva Dögg Sigurðardóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu um nýsköpun enda er stefnumörkun í þessum efnum mjög mikilvæg. Ég hef skoðað samfélagslega nýsköpun mikið undanfarið og þá sérstaklega í Danmörku. Þar er til að mynda háskólanám á meistarastigi sem lýtur sérstaklega að þessum málaflokki. Þar er einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sem hafa nýsköpunarhugmyndir tengdar félagslegum ábata sérstaklega gert hátt undir höfði. Þar er vitað að það er mjög varasamt að hafa samfélagslega nýsköpun ekki í forgrunni þegar nýsköpun er rædd á annað borð. Því spyr ég hvers vegna ekki sé lögð meiri áhersla á samfélagslegar nýsköpunarlausnir í þessari þingsályktunatillögu. Það þarf að koma inn meiri stuðningi við samfélagslegar áskoranir og þá nýsköpun sem lýtur ekki bara að tækniframförum heldur framförum í hugmyndum sem tengjast því aðstoða okkur, bæta samfélagið okkar, að takast á við þær félagslegu áskoranir sem við erum alltaf að glíma við, hvort sem um er að ræða atvinnusköpun, jaðarsetta hópa, ungt fólk, eldra fólk og þeirra áskoranir eða samþættingu á mörgum samfélagsáskorunum.

Hvernig ætlum við að mæta félagslegum þörfum í gegnum nýsköpun, í gegnum fjölbreyttari leiðir en áður hafa verið farnar, ekki bara í tengslum við hugvit sem stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar heldur hér heima, okkar samfélagslegu þarfir og hröðu breytingar? Hvernig styður þessi þingsályktunartillaga við það að þekking og hugmyndir af samfélagslegum toga fái meira vægi? Til að kjarna mál mitt þá spyr ég einfaldlega: Af hverju er ekki meira fjallað um samfélagslega nýsköpun í þessari ályktun? Hefur það einfaldlega gleymst eða er það meðvituð ákvörðun og er þá hugsanlega einhvers meira að vænta í þessum efnum?