132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skipulögð leit að krabbameini í ristli.

13. mál
[16:50]
Hlusta

Flm. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um skipulagða leit að krabbameini í ristli. Ásamt mér eru flutningsmenn Margrét Frímannsdóttir, Ögmundur Jónasson, Guðjón A. Kristjánsson, Halldór Blöndal, Rannveig Guðmundsdóttir, Siv Friðleifsdóttir. Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í samráði við landlækni að hefja undirbúning að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi þannig að skipuleg leit hefjist 1. júlí 2006.“

Í heilbrigðisáætlun til ársins 2010, sem samþykkt var af Alþingi og gefin út af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu 2001, er fjallað um krabbameinsvarnir. Þar segir m.a. að aðalmarkmiðið sé að dánartíðni vegna krabbameina hjá fólki yngra en 75 ára lækki um 10%.

Þá er fjallað almennt um krabbamein en um þriðjungur þjóðarinnar fær krabbamein á lífsleiðinni og nálægt fjórðungur landsmanna deyr af völdum þess. Tíðni krabbameina fer vaxandi upp að ákveðnum aldri. Rannsóknir benda til þess að tengsl séu á milli lífshátta og krabbameina. Einnig eru ýmis efni í umhverfinu krabbameinsvaldandi. Að öllu óbreyttu er búist við áframhaldandi hækkun á nýgengi og dánartíðni krabbameina umfram eðlilegar aldurshækkanir. Miklar framfarir hafa orðið í meðferð ýmissa tegunda krabbameina þannig að margir fá nú bót meina sinna og öðrum er gert mögulegt að lifa lengur með sjúkdóm sinn en áður þekktist. Þá er að lokum getið þeirra leiða sem beita skal til að ná fyrrgreindum markmiðum:

1. Fræðsla um áhættuþætti krabbameina.

2. Aðgerðir sem hvetja til heilbrigðra lífshátta.

3. Gerð klínískra leiðbeininga er lúta að greiningu og meðferð krabbameina.

4. Skipulögð krabbameinsleit og eftirlit með áhættuþáttum.

5. Efling rannsókna á tengslum krabbameina og lífshátta, umhverfishátta og þjóðfélagsstöðu.

Hér á landi hefur skipulögð leit að leghálskrabbameini verið framkvæmd um 40 ára skeið og leit að brjóstakrabbameini hófst 1986. Krabbamein í ristli og endaþarmi er annað algengasta krabbameinið meðal Íslendinga og önnur algengasta dánarorsökin af völdum krabbameina en fram til þessa hefur fræðsla og forvarnir gegn því ekki verið forgangsverkefni. Á vegum landlæknisembættisins var þó lögð mikil vinna til gerðar klínískra leiðbeininga um ristilkrabbamein með yfirskriftinni: Skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi.

Mikilvægi þess að geta fækkað dauðsföllum af völdum krabbameina er öllum ljóst. Krabbamein í ristli og endaþarmi eru í dag orsök mikils heilsutjóns og eru þriðja algengasta dánarorsök af völdum krabbameina meðal Íslendinga. Nokkrar mjög stórar rannsóknir þar sem einstaklingum hefur verið fylgt eftir í nálægt tvo áratugi hafa sýnt óyggjandi að fækka má dauðsföllum af völdum þessara krabbameina með skimun þar sem leitað er að blóði í hægðum. Þar sem bein áhætta er lítil og minnkun áhættu með skimun tekur fjölda ára að koma fram er ekki óeðlilegt að enn hefur ekki verið sýnt fram á minnkun heildardánartíðni vegna skimunar.

Þann 8. mars 2000 skipaði Sigurður Guðmundsson landlæknir starfshóp sem fékk það hlutverk að gera tillögur að leiðbeiningum um skimun fyrir ristilkrabbameini á Íslandi. Hópurinn hefur nú skilað áliti sínu til landlæknis. Niðurstaða starfshópsins var að mæla með því að hafin verði skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi á Íslandi. Slík skimun á að beinast að:

1. Einstaklingum, körlum og konum, 50 ára og eldri, sem eru án einkenna og teljast í meðaláhættu.

2. Einstaklingum, körlum og konum, með aukna áhættu á krabbameinum í ristli eða endaþarmi.

Fyrir einstaklinga, karla og konur, 50 ára og eldri, sem eru án einkenna og teljast í meðaláhættu verði eftirfarandi leitaraðferð beitt: Leit að blóði í hægðum einu sinni á ári og stutt ristilspeglun hjá þeim sem greinast með blóð í hægðum. Lagt til að kannaður verði betur grundvöllur þess að gera slembirannsókn þar sem leit að blóði í hægðum er borin saman við ristilspeglun. Ýmislegt bendir til að með ristilspeglun verði unnt að finna stóran hluta af forstigum krabbameina í ristli og endaþarmi, en rannsókn vantar þar sem þessar tvær skimunarleiðir eru bornar saman til að meta lækkun á dánartíðni af völdum krabbameina í ristli og endaþarmi.

Í öðru lagi eru einstaklingar, karlar og konur, með aukna áhættu á krabbameinum í ristli eða endaþarmi. Þeir sem eiga náinn ættingja, foreldra, systkin eða barn, með krabbamein í ristli eða endaþarmi.

Ef einn fyrsta stigs ættingi hefur greinst eftir 55 ára aldur með krabbamein er gert ráð fyrir sömu skimun og við meðaláhættu, en hefja skimunina við 40 ára aldur. Ristilspeglun fari fram á 5–7 ára fresti og fyrsta speglun við 40 ára aldur eða 10 árum yngri en ættinginn var þegar hann greindist með sjúkdóminn. Ef þrír fyrsta stigs ættingjar hafa greinst er mælt með sama eftirliti og greiningaraðferðum og ráðlagt er varðandi HNPCC.

Fyrir þá sem hafa fjölskyldusögu um HNPCC er mælt með erfðarannsókn og ristilspeglun á 1–2 ára fresti, fyrsta speglun við 25 ára aldur eða við 5 ára yngri aldur en yngsti meðlimur fjölskyldunnar sem hefur greinst með ristilkrabbamein.

Þeir sem hafa fjölskyldusögu um FAP, þ.e. Familial Adenomatous Polyposis, er gert ráð fyrir erfðarannsókn og stuttri ristilspeglun.

Ég ætla ekki að lesa allt sem hér kemur fram en nefni að fyrir þá sem hafa fyrri sögu um krabbamein í ristli eða endaþarmi og hafa farið í aðgerð með lækningu í huga er mælt með ristilspeglun innan þriggja mánaða frá aðgerð, ef hún var ekki framkvæmd fyrir skurðaðgerðina. Síðan ristilspeglun eftir 3 ár og síðan á 5 ára fresti.

Farið hefur fram skipulagt fræðsluátak undir yfirskriftinni Vitundarvakning gegn ristilkrabbameini. Það byrjaði í október árið 2002 og var alfarið kostað af fyrirtækjum sem sýndu málefninu skilning og velvild. Öll undirbúningsvinna var unnin í sjálfboðavinnu, svo sem gerð fræðslubæklinga, sjónvarpsþáttar og fyrirlestra og gerð vefsíðunnar www.vitundarvakning.is.

Vert er að minnast ómetanlegs stuðnings Árna heitins Ragnars Árnasonar alþingismanns sem sýndi þessu verkefni brennandi áhuga vegna skilnings hans á aukinni fræðslu um þennan sjúkdóm og mikilvægi þess að fólk hafi góða þekkingu á tilurð og fyrstu einkennum hans. Hann var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um auknar forvarnir gegn krabbameinum í meltingarvegi. Góð samstaða fékkst um tillöguna meðal alþingismanna allra stjórnmálaflokkanna og 3. maí 2002 var samþykkt á Alþingi eftirfarandi þingsályktun:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra í samráði við landlækni að gera tillögur um hvernig staðið skuli að forvarna- og leitarstarfi vegna krabbameins í meltingarvegi fyrir þá sem teljast vera í áhættuhópi og undirbúa framkvæmd starfsins. Jafnframt verði hafinn undirbúningur að því að beita sömu aðferðum, eftir því sem fært er, í baráttunni við aðrar algengustu tegundir krabbameina hér á landi.“

Í mörg ár hefur verið deilt um réttmæti skimunar, kembileitar, og markvissra forvarna gegn krabbameini í ristli og endaþarmi. Ítarlegar og vandaðar rannsóknir hafa verið gerðar með þátttöku nokkur hundruð þúsund einkennalausra einstaklinga á aldrinum 45–75 ára. Niðurstöður þeirra rannsókna benda eindregið til að með skipulagðri skimun fyrir ristilkrabbameini megi fækka dauðsföllum vegna þessa sjúkdóms um 15% til 33%. Með aðferðum sem er beitt í heilsuhagfræðinni hefur jafnframt verið sýnt fram á að kostnaðarvirknihlutfall fyrir leit að þessu krabbameini er hagkvæm forvarnaíhlutun. Þeim sömu aðferðum beita heilbrigðisyfirvöld víða í vaxandi mæli þegar teknar eru ákvarðanir um forgangsröð í heilbrigðismálum. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur birt skýrslu um kostnað og ábata kerfisbundinnar skimunar eftir krabbameini í ristli og endaþarmi í nóvember 2002. Í samantekt skýrslunnar segir: „Mikilvægar vísbendingar eru til þess að skimun dragi úr nýgengi og dánartíðni vegna krabbameina í endaþarmi og ristli.“

Staðreyndir um krabbamein í ristli og endaþarmi.

Eins og fram hefur komið er krabbamein í ristli annað algengasta krabbameinið sem greint er hjá Íslendingum og önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameina. Það greinast um 120 einstaklingar árlega með þetta krabbamein og um 50 Íslendingar deyja árlega af völdum þessa sjúkdóms. Nýgengi, (ný tilfelli sem greinast á ári) sjúkdómsins fer vaxandi samkvæmt nýlegri spá um nýgengi krabbameina á Norðurlöndum fram til ársins 2020 og vegna hækkandi aldurs er spáð verulegri fjölgun tilvika eða 46% hjá körlum en 22,6% hjá konum. Hér á landi er spáð fjölgun greindra tilvika um 85% hjá körlum en um 70% hjá konum ef miðað er við meðaltal áranna 1993–97 til meðaltals áranna 2018–2020.

Dauðsföllum hefur fækkað um 15–33% hjá einkennalausum einstaklingum sem leitað er hjá borið saman við einstaklinga þar sem ekki er leitað að blóði í hægðum.

Ristilkrabbamein er nú algengasta krabbameinið (304.687 tilfelli) í Evrópu samkvæmt nýjustu upplýsingum frá WHO Globocan, þegar austur hlutinn og EFTA-löndin eru tekin með, þ.e. hærra nýgengi en nýgengi lungnakrabbameins, sem voru töluvert færri.

Hverjir fá svo þetta krabbamein? Áhættuþættir þessa sjúkdóms eru vel þekktir en þeir vega ekki allir jafnþungt. Meira en þrír fjórðu hlutar (75%) þessara krabbameina greinast hjá fólki með meðaláhættu, þar sem hækkandi aldur skiptir mestu máli. Flest krabbameinanna greinast hjá einstaklingum sem eru komnir yfir fimmtugt. Margir þeirra eru engu að síður á „besta“ aldri þegar áfallið kemur.

Hér á Íslandi greinast 67% fólks fyrir 75 ára aldur, 56% fyrir 70 ára aldur og tæp 40% fyrir 65 ára aldurinn. Árlega greinast um 50 einstaklingar með sjúkdóminn á aldrinum 45–65 ára.

Er mögulegt að fyrirbyggja ristilkrabbamein? Þessari spurningu er hægt að svara játandi og ekki er deilt um það lengur. Flest þessara krabbameina hafa góðkynja forstig, sem nefnt er kirtilæxli eða ristilsepi. Um 20–25% þeirra sem eru 50 ára og eldri hafa þegar myndað þessa sepa, en ekki nema lítill hluti þeirra (4–6%) verður illkynja. Þar sem þetta forstig er oftast einkennalaust, eins og reyndar byrjandi krabbamein í ristli, þarf að leita að þessum meinsemdum hjá einkennalausu fólki. Það skiptir sköpum að greina meinsemdina snemma og þarna skilur á milli lækningar og alvarlegra veikinda vegna krabbameins með meinvörpum þar sem fimm ára lífslíkur eru verulega skertar.

Í baráttunni við þennan sjúkdóm er mikilvægt að þekkja fyrstu einkenni hans, en ef verulegur árangur á að nást verður að greina hann hjá einstaklingum sem eru einkennalausir. Nú greinast yfir 60% Íslendinga með sjúkdóminn með staðbundna útbreiðslu (í eitla) eða útbreiðslu til fjarlægari líffæra (t.d. lifrar).

Eru greiningaraðferðir flóknar og hættulegar? Þessu er hægt að svara neitandi. Rannsóknaraðferðirnar eru aðallega tvenns konar: leit að blóði í hægðum og ristilspeglun.

Athugun á blóði í hægðum er einföld, ódýr og hættulaus rannsókn.

Ristilspeglun er flóknari og fyrirhafnarmeiri, en að sama skapi nákvæmari rannsókn til að greina þessi mein.

Hverju skilar skimun? Flestir sem hafa skoðað þetta mál til hlítar eru sammála um að það sé mjög skynsamlegt að hvetja til skimunar fyrir þessu krabbameini. Rannsóknirnar þrjár, sem áður er vitnað til, leiddu í ljós að ýmist þurfti að leita hjá 360, 470 eða 747 einstaklingum í 13, 10 og 7, 8 ár, til að koma í veg fyrir eitt dauðsfall af völdum ristilkrabbameins. Samnorræn rannsókn (Hristova og Hakama, 1997) spáði að hægt væri að lækka dánartíðni af völdum ristilkrabbameins um 15–20% með kembileit sem framkvæmd væri frá árunum 1993 til 2017.

Forkönnun á skimun var framkvæmd á vegum Krabbameinsfélags Íslands á árunum 1986 og 1988. Þá fundust þrír einstaklingar með krabbamein, eða eitt tilfelli af hverjum 800 sem tóku þátt í rannsókninni.

Þar sem tími minn er búinn að þessu sinni, hæstv. forseti, mun ég nota seinni ræðutíma minn til frekari umræðu um málið.