133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

þjónusta á öldrunarstofnunum.

118. mál
[14:19]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við aldraða sem kom út fyrir réttu ári er vakin athygli á því að þjónusta öldrunarstofnana er afar mismunandi. Það á jafnt við um þætti sem snúa að heilbrigðisþjónustu, eins og endurhæfingu, og annarri stoðþjónustu, eins og þvotti og félagsstarfi.

Í lögum um málefni aldraðra segir að í dvalarrýmum skuli vera völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum, félags- og tómstundastarfi svo og aðstöðu fyrir endurhæfingu. Í reglugerð um greiðslu öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu kemur fram að stofnunum er ekki skylt að kosta persónulega muni og aukaþjónustu, svo sem fatnað, fatahreinsun, snyrtivörur, hársnyrtingu og fótsnyrtingu. Þó er litið svo á að stofnanir fyrir aldraða eigi að sjá um þvott hjá heimilisfólki, eins og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og hefur jafnframt verið ítrekað frá heilbrigðisráðuneytinu til stofnananna.

Flest höfum við átt eða eigum nákominn ættingja á hjúkrunarheimili. Það er öllum ljóst að aðbúnaður og þjónusta þessara stofnana er mismunandi. Sums staðar búa allir íbúar í einstaklingsrýmum en annars staðar þurfa þeir að deila persónulegu rými sínu með öðrum. Á einum stað er persónulegt rými hins aldraða 8 fermetrar en á öðrum 26 fermetrar. Aðeins tæplega þriðjungur íbúa á hjúkrunarheimilum er með sérbaðherbergi.

Fyrirspurn mín í dag varðar þvott á fatnaði aldraðra á hjúkrunarheimilum. Tilefni fyrirspurnar minnar er að fyrir nokkru kom til mín aldraður maður sem sagði farir sínar ekki sléttar. Kona hans er á hjúkrunarheimili og veikindi hennar eru þess eðlis að hún þarf að hafa alskipti á klæðnaði a.m.k. þrisvar á dag. Það er partur af hennar veikindum. Þar sem heimilið vísar frá sér ábyrgð á þvotti vistmanna færist verkefnið á hendur gamla mannsins, hann þarf að sækja þvottinn, þvo hann og koma honum aftur til konu sinnar sem kostar mikið umstang, peninga og áhyggjur fyrir gamla manninn. Einu tekjur konu hans eru vasapeningar og duga þeir ekki til að standa undir kostnaði við þvottinn. Það sjá allir að þetta gengur ekki upp, enda er stofnuninni gert skylt að sjá um þvottinn sem er hluti af grunnþjónustu en hún gerir það ekki.

Því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra um skyldur öldrunarstofnana varðandi þvott heimilisfólks og hver sé kostnaður við þá þjónustu. Fyrirspurn mín er svohljóðandi:

1. Hvaða þjónustu, utan skilgreindrar heilbrigðisþjónustu, er öldrunarstofnunum skylt að veita vistmönnum?

2. Eiga öldrunarstofnanir að sjá um þvott vistmanna þeim að kostnaðarlausu? Ef svo er, hvernig er því fylgt eftir að þjónustan sé veitt?

3. Hvaða öldrunarstofnanir sjá ekki um þvott vistmanna?

4. Hver er talinn árlegur kostnaður öldrunarstofnana við þvott vistmanna?