135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

95. mál
[15:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að flytja langa ræðu um þetta frumvarp sem varðar greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, Fjármálaeftirlitið. Það segir sig sjálft að það er mikilvægt að búa vel að þeirri stofnun.

Sífellt meira vald hefur færst á hendur fjármálafyrirtækja, banka og annarra fjármálastofnana. Segja má að auðvaldið hafi verið að eflast í samfélagi okkar og mikilvægt er að því séu settar ákveðnar skorður. Það má gera með ýmsu móti, með öflugri verkalýðshreyfingu sem veitir fjármagnsöflunum aðhald og síðan að sjálfsögðu með góðri lagaumgjörð og eftirlitsstofnun sem sér til þess og fylgist með því að farið sé að lögum og unnið innan reglugerðaramma.

Að venju munum við taka skýrsluna sem hæstv. viðskiptaráðherra vísaði til og það frumvarp sem hann leggur fyrir til ítarlegrar umfjöllunar í nefndum þingsins þegar þar að kemur. Áður var það efnahags- og viðskiptanefnd sem fór yfir málin en nú mun viðskiptanefnd sennilega hafa það verkefni með höndum. Ég vil minna hæstv. ráðherra á umræðu sem fram fór í sumar undir lok júnímánaðar við fyrirhuguð slit á Samvinnutryggingum. Skrifaðar voru nokkrar blaðagreinar um málefnið og ef þing hefði þá setið hefði það án efa vakið umræðu í þinginu.

Ég skrifaði á opinberum vettvangi orðsendingu þess efnis að ég vonaðist til að Fjármálaeftirlitið kannaði málið og hæstv. viðskiptaráðherra að sama skapi svo hann yrði undir það búinn að skýra málin fyrir hönd eftirlitsaðila þegar Alþingi kæmi saman. Nú munu þessi slit ekki hafa farið fram. En ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi kafað í þessi mál eða hvort hann telji ástæðu til að endurskoða lög og þær reglur sem um þetta gilda.

Við slit Samvinnutrygginga sem eiga sér langa og merka sögu, 60 ára sögu, var frá því greint í fjölmiðlum að 24 manna fulltrúaráð eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga mundi ákveða hvaða hópur skyldi frá greidda tugmilljarða króna. Við erum að tala um geysilega fjármuni og inn í umræðuna fléttuðust einnig, hvað eigum við að kalla það, aðdróttanir, getgátur eða vangaveltur um hvort einstaklingar og hópar í tilteknum stjórnmálaflokki hefðu notið góðs af fjármunum úr þessum sjóði. Ég ætla ekkert að fullyrða um það efni. En hér kemur að sjálfsögðu til kasta eftirlitsaðila á borð við Fjármálaeftirlitið að tryggja að farið sé í hvívetna að settum reglum.

Varðandi slitin á Samvinnutryggingum sem menn hafa verið að fresta aftur og ítrekað, nú síðast fyrir um hálfum mánuði, þá spyr ég hæstv. ráðherra hvort fram hafi farið vinna í ráðuneytinu um þann lagagrunn sem sjóðir af þessu tagi starfa samkvæmt og hvort honum sé kunnugt um að Fjármálaeftirlitið hafi farið í saumana á þeim málum.

Annað mál sem einnig kom til umræðu í sumar var framtíð sparisjóðanna í landinu. Spunnust nokkrar deilur um hvernig staðið var að samruna tiltekinna sparisjóða og urðu greinaskrif almennt um það efni. Við þekkjum þá umræðu vel úr þessum sal frá því er á sínum tíma risu átök vegna stofnfjárhluta í SPRON og reyndar í öðrum sparisjóðum einnig.

Öllum er það kunnugt að sparisjóðir í landinu hafa átt í höggi við óprúttna risa á fjármálamarkaði, við banka og fjármálamenn, sem allt og alla vilja gleypa og sölsa undir sig. Í öðru lagi hefur slagurinn staðið um eigin hagsmuni og nokkuð sem ég leyfi mér að kalla græðgi. Stofnfjáreigendur í sparisjóðum fengu margir hluti sína vegna stjórnmálalegra tengsla og ber því að axla þær skyldur sem slíku tengist en ekki gera sér þá að gróðatilefni.

Vert er að minna á sjónarmið þeirra sem hafa farið inn í sparisjóðina og eiga þar hluti af félagslegum ástæðum. Þau hafa einnig komið fram í þessari umræðu. Ég minnist sérstaklega mjög athyglisverðrar blaðagreinar sem Ari Teitsson, fyrrverandi formaður Bændasamtakanna, ritaði í Fréttablaðið í sumar. Ari Teitsson er núna bóndi á Hrísum í Þingeyjarsýslu og gegnir formennsku í Sparisjóði Suður-Þingeyinga. Í grein sinni vísar hann í aðra kunna sparisjóðsmenn, m.a. Magnús Sigurðsson á Gilsbakka, fyrrum stjórnarformann Sparisjóðs Mýrasýslu.

Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa þessa grein eftir Ara Teitsson. Hún er mjög stutt en mjög athyglisverð. Greinin nefnist „Þankar um sparisjóði“ og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sparisjóðirnir hafa verið nokkuð í umræðunni að undanförnu. Viðskiptaráð telur þá staðnaða og á fallanda fæti, deilur hafa verið um formbreytingar Sparisjóðs Skagafjarðar, SPRON er að breytast í öflugt hlutafélag og eftirspurn er eftir stofnfjárhlutum margra sparisjóða.

Aukinn áhugi á sparisjóðunum á sér mjög eðlilegar skýringar, þ.e. að rekstur þeirra hefur almennt gengið vel á undanförnum árum, þeir hafa vaxið mjög að umfangi og eigin fé og veita viðskiptavinum betri þjónustu en aðrar fjármálastofnanir. Ef til vill stafar gremja viðskiptaráðs ekki síst af því að augljóst er af árangri sparisjóðanna að unnt er að reka fjármálastofnanir með góðum árangri í öðru formi en sem hlutafélag.

Eðli og tilgangi sparisjóðanna er vel lýst af fyrrverandi stjórnarformanni Sparisjóðs Mýrasýslu, Magnúsi Sigurðssyni á Gilsbakka, í formála bókar um 90 ára sögu Sparisjóðs Mýrasýslu sem út kom árið 2003, en þar segir Magnús m.a.:

„Mestu máli skiptir þó, að hér má lesa, bæði með beinum orðum, en ekki síður milli línanna, að sparisjóðurinn er af grunni risinn sem félagsleg stofnun; honum var og er ætlað það hlutverk að þjóna héraðinu, með því að ávaxta aflögufé manna í þörfum verkefnum fyrirtækja og einstaklinga í héraði. Hann hefur því engan veginn eðli hlutafélagsbanka, sem reknir eru til ábata fyrir eigendur hlutafjár. Samskipti hans við einstaklinga og fyrirtæki hafa jafnan mótast af þessari hugsun.“

Um stofnfé sparisjóðanna segir Magnús:

„Af þeirri félagslegu hugmyndafræði, sem sparisjóðir byggjast á, leiðir líka, að stofnfjáreigendur, sem nú eiga að lögum að standa að hverjum sparisjóði, eru engan veginn eigendur sjóðanna, heldur trúnaðarmenn umhverfisins, sem falið er að gæta þessa fjöreggs byggðanna. Ræki þeir hlutverk sitt eins og til er ætlast í þeirri hugmyndafræði, verða sparisjóðirnir aldrei „fé án hirðis“. Þetta er mikilvægt að allir skilji.“

Vert er að hugleiða frekar stöðu og hlutverk sparisjóða á landsbyggðinni. Einkavæðing og fénýting síðustu ára hefur ekki reynst landsbyggðinni heilladrjúg. Hún hefur í flestum tilfellum fært fyrstu eigendum fénýtingarinnar mikla fjármuni en síðari notendur þurfa síðan að bera kostnaðinn af mikilli fjárbindingu. Má þar nefna fénýtingu fiskveiðikvóta og mjólkurkvóta, sölu grunnnets fjarskipta og sala ríkisbankanna hefur ekki bætt þjónustu þeirra á landsbyggðinni.

Fénýting eigin fjár sparisjóðanna í þágu stofnfjáreigenda, sem viðskiptaráð virðist telja sjálfsagða, mun með sama hætti leiða af sér mikla fjárbindingu sem bera þarf kostnað af. Nálægð við fjármálaþjónustu og aðgangur að lánsfé er forsenda atvinnu og mannlífs í hverri byggð. Þessa þjónustu hafa sparisjóðirnir veitt hver á sínu starfssvæði. Er ekki eðlilegt að þeir sem notið hafa þjónustu Sparisjóðs Mýrasýslu eða annarra sparisjóða geri kröfu um að það rekstrarform sparisjóðanna sem reynst hefur vel í 100 ár eigi völ á að lifa í friði, og viðurkennt sé að það hefur kosti ekki síður en græðgi og fénýting?“

Undir þessa grein skrifar Ari Teitsson, fyrrum formaður Bændasamtaka Íslands, nú bóndi á Hrísum í Suður-Þingeyjarsýslu og, sem áður segir, jafnframt stjórnarformaður í Sparisjóði Suður-Þingeyinga.

Þetta finnast mér athyglisverð orð og þau hljóta að vekja okkur til umhugsunar þegar við sjáum þá aðför sem nú er gerð að sparisjóðunum á landsbyggðinni líkt og ég vék að áður. Hörðust var þessi sókn í sumar í Skagafirði. Aðsóknin að Sparisjóði Skagafjarðar, sem þá var verið að sameina Sparisjóði Siglufjarðar með það fyrir augum að ráðast í frekari samruna. En í skjóli þeirra formbreytinga er ljóst að ýmsir einstaklingar ætluðu sér allgóðan hlut sjálfum sér til hagsbóta. Kem ég þá að efninu sem ég vildi vekja máls á.

Við ræðum hér um Fjármálaeftirlitið og hvernig það er fjármagnað. Almennt hef ég og flokkur minn stutt að vel sé búið að Fjármálaeftirlitinu. Að sama skapi þarf Fjármálaeftirlitið að rækja skyldur sínar gagnvart samfélaginu. Ég vek athygli á því að tveir fulltrúar úr baklandi Sparisjóðs Skagafjarðar sendu í sumar erindi til Fjármálaeftirlitsins þar sem fundið var að fundarhaldi og samrunaferlinu. Þeir kærðu það til Fjármálaeftirlitsins en þeir hafa engin svör fengið. Þeir hafa engin svör fengið önnur en þau að staðfest hefur verið að erindi hafi borist og í einu undantekningartilviki var því reyndar svarað. Það var þegar þeir félagar sem ég vísa hér til, Gísli Árnason og Bjarni Jónsson, óskuðu eftir upplýsingum, bakgrunnsupplýsingum, sem vörðuðu þetta mál. Þá stóð ekki á svari en það var á þá lund að þær upplýsingar fengju þeir ekki.

Ég vil allra vinsamlegast beina því til hæstv. viðskiptaráðherra að hann kanni þessi mál vegna þess að mér þykir ámælisvert ef stofnunin rís ekki undir skyldum sínum hvað varðar þjónustu við samfélagið. Þarna kallar samfélagið á aðstoð. Þetta er ástæðan fyrir því að ég las upp grein Ara Teitssonar, sem tengir sparisjóðina hagsmunum samfélagsins. Þarna eru komnir einstaklingar sem vilja standa vaktina fyrir hönd heimabyggða sinna og leita til Fjármálaeftirlitsins en eru hunsaðir.

Þetta gengur ekki. Við munum að sjálfsögðu ganga eftir svörum við þessu þótt á þessu stigi sé ég engan veginn að stilla hæstv. ráðherra upp við vegg. Ég beini því til hans og ráðuneytis hans að fram fari athugun á þessum efnum. Ég ítreka spurningu mína frá því áðan: Hefur ráðherrann látið fara fram könnun á því hvort úrbóta sé þörf á laga- og reglugerðaumgjörð er varðar Samvinnusjóðinn sem ég vísaði til áðan? Sama gildir að sjálfsögðu um lagaumhverfi sparisjóðanna.