138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[18:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að núna séu að skapast aðstæður í þjóðfélaginu til að fara í almennar afskriftir. Það segi ég vegna þess að það blasir við að við uppgjör bankanna hefur stór hluti húsnæðislána Íslendinga verið afskrifaður nú þegar. Málflutningur okkar framsóknarmanna gekk út á það og gengur út á það að þessar afskriftir renni áfram. Það má nýta Íbúðalánasjóð í þessu tilliti til að endurfjármagna markaðinn. Við settum reyndar fram tillögur um það á sínum tíma að öll húsnæðislán sem yrðu afskrifuð hjá bönkunum yrðu færð inn í Íbúðalánasjóð og svigrúmið sem afskriftirnar sköpuðu yrði nýtt til þess að fara í flata niðurfellingu á skuldum. Núna þegar búið er að gera upp bankana eigum við að fara að skoða þetta. Við eigum líka að skoða með opnum huga, akkúrat á þessum tímapunkti, hvernig við getum nýtt skuldbreytingar og Íbúðalánasjóð til að fjármagna þær skuldbindingar til þess að lækka höfuðstól. Skuldbreytingar geta verið mjög nytsamlegar í þessu tilliti, fólki getur staðið til boða að lækka höfuðstólinn sinn gegn því að fara yfir í óverðtryggð lán. Þannig getur það auðvitað fjármagnað lækkun höfuðstólsins að hluta til með vöxtum, en þá er það komið með eina leið til að geta boðið upp á þetta.

Þá komum við líka að því af hverju við ættum að gera það núna. Það er auðvitað til þess að örva frosinn markað, markað sem er frosinn núna. Við vitum ekkert hvort hann verður eitthvað sérstaklega frosinn eftir 20, 30 eða 40 ár, við erum í því ástandi núna að það er botnfrosinn markaður og hann er náttúrlega m.a. botnfrosinn vegna þess að höfuðstóllinn hefur hækkað svo mikið að það er engin hreyfing á fasteignamarkaði. Fólk getur einfaldlega ekki selt íbúðirnar sínar vegna þess að það stendur þá uppi með skuldir þó að það hafi selt. Það er enn ein röksemdin fyrir því að fara í skuldbreytingar og beita öllum þeim tækjum og tólum, og þau eru nokkur í þessu frumvarpi, til þess að fara í almenna niðurfellingu skulda (Forseti hringir.) akkúrat núna.