139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

almenn hegningarlög.

48. mál
[12:27]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jórunni Einarsdóttur fyrir mjög greinargóða skýrslu, vil ég segja, um stöðu þeirra mála sem við ræðum hér, stöðu kynferðisbrota og beitingu lagaákvæða þar um. Ég get þó ekki stillt mig um, um leið og ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og gott yfirlit, að lýsa nokkrum efasemdum um efni þessa frumvarps. Í fyrsta lagi vil ég nefna það að ég óttast að hækkun á lágmarksrefsingu úr einu ári í tvö muni ekki leiða til þess að ákærum vegna nauðgunarbrota fjölgi eða dómar verði harðari eða meira í takt við réttlætistilfinningu almennings. Jafnvel þvert á móti. Það hefur sýnt sig að í löndum þar sem refsingar við kynferðisbrotum eru mjög strangar, jafnvel líflátsrefsingar, leiðir það frekar til þess að kærur eru færri og dómar eru færri. Ég hef miklar efasemdir um þessa tillögu fyrir utan að ég almennt er ekki mjög refsiglöð kona.

Ég hef einnig miklar efasemdir um það að nema úr þessum kafla hegningarlaga ákvæði eins og til að mynda um sviptingu sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða með öðrum sambærilegum hætti. Þetta eru hlutir sem munu væntanlega koma til umræðu í hv. allsherjarnefnd sem mun væntanlega fá þetta frumvarp til athugunar. Ég vil taka sérstaklega undir það sem kom fram, og var meginþunginn í máli hv. þingmanns, að þeir andlegu áverkar og þær afleiðingar á sálar- og tilfinningalíf þess sem verður fyrir kynferðisbroti og nauðgun eru svo alvarlegar að það er með ólíkindum að fram hjá þeim skuli litið við dóma og við ákvörðun um refsingu. Ef þetta mál má verða til þess að um það verði fjallað betur í refsiréttarlöggjöfinni okkar eða í afgreiðslum þessara mála fyrir dómum tel ég til nokkurs unnið.

Að lokum, frú forseti, vil ég leggja til að með tilliti til lýðheilsusjónarmiða verði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins flutt frá fjármálaráðuneyti til heilbrigðisráðuneytis.