142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[11:50]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum (flýtimeðferð). Í stuttu máli sagt þá felur þetta mál það í sér að þegar ágreiningur í dómsmáli lýtur að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða uppgjöri slíkra skuldbindinga skuli hraða meðferð slíks máls. Gert er ráð fyrir að heimild þessi sé til bráðabirgða á meðan greitt er úr þeim ágreiningi sem enn er til staðar og gert er ráð fyrir að þessi heimild falli niður 1. janúar 2015.

Fram kom í máli þeirra gesta sem komu á fund nefndarinnar og veittu umsagnir við þetta mál að vissulega reyna dómarar nú þegar að flýta þessum málum eins og kostur er. Hins vegar er ekki bein lagaheimild til að gera það og kom fram í máli ýmissa sem komu á fund nefndarinnar að brýnt sé að veita dómurum þá lagaheimild þannig að ákvarðanir dómara í þessu efni hafi sterka lagastoð, þ.e. að þeir geti tekið mál er varða ágreiningsefni sem þessi fram fyrir önnur mál — og nefndin tekur undir þessi sjónarmið.

Mikið var rætt um það í nefndinni að þessi breyting mætti ekki raska því að málsaðilar hefðu tök á að verja sig eða leggja fram mál sitt og undirbúa málsrökin. En nefndin áréttaði að frumvarpið felur ekki í sér að málsforræðisreglunni sé vikið til hliðar heldur er þetta einfaldlega heimild til dómara til að liðka fyrir því að mál fari eins hratt og hægt er í gegnum dómskerfið, allir frestir verði eins stuttir og mögulegt er og að dómar séu kveðnir upp eins fljótt og kostur er.

Fram kom í umsögn Lögmannafélags Íslands að réttara væri að fara í þá vegferð að lögfesta frekar að málum sem þessum bæri að vísa inn í XIX. kafla einkamálalaganna, þ.e. þann kafla einkamálalaganna þar sem fjallað er um flýtimeðferð. Þetta var allnokkuð rætt en nefndin vildi ekki fara þá leið vegna þess að við það styttast allir frestir það mikið og málsmeðferðin verður það knöpp að nefndin taldi hættu á að ekki gæfist nægilegur tími til að undirbúa mál.

Fram kom í umsögnum sem bárust að nú eru um það bil 60 mál af framangreindum toga í meðferð hjá héraðsdómstólunum og við vitum ekki hversu mörg mál eru á leiðinni. Nefndin telur rétt að gefa dómstólunum og aðilum máls svigrúm til að skoða hvert mál fyrir sig og meta hvort rétt sé að það fari eins hratt og hægt er í gegn eða hvort það þurfi einfaldlega lengri tíma. Málin eru misjöfn. Sum þeirra eru gríðarlega flókin og umfangsmikil og því rétt að þetta sé einfaldlega heimild sem dómari noti og meti.

Nefndin telur jafnframt nauðsynlegt að fylgjast með því hvaða áhrif þessi breyting hafi á störf dómstólanna, hvort þetta valdi því að þar verði umtalsverð röskun á störfum. Þá þurfum við að taka málið upp og grípa inn í og kanna hvort þetta sé heimild sem nýtist, hvort þetta veldur of miklu raski þannig að við þurfum að grípa inn í. Við ætlum okkur að fylgjast með því í nefndinni.

Mig langar að þakka fyrir gott samstarf í nefndinni. Við erum auðvitað á sumarþingi og höfum ekki ótakmarkaðan tíma til umráða. Engu að síður hefur verið mjög góð umræða í nefndinni og við höfum velt upp helstu álitaefnum. Mig langar að vekja athygli á fyrirvara sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir hefur varðandi þetta mál — ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður geri sjálf grein fyrir honum — en hann varðar það hvort það nái þeim yfirlýstu markmiðum að þessi mál fái fljóta meðferð í gegnum dómstólana.

Allir nefndarmenn eru á þessu nefndaráliti fyrir utan hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson sem var fjarverandi við afgreiðslu málsins en mun væntanlega gera grein fyrir afstöðu sinni hér á eftir. Samstarfið í nefndinni var mjög gott og við höfum náð samkomulagi um að taka málið aftur inn á milli umræðna til að fara eilítið betur yfir þau sjónarmið sem við höfum verið að velta fyrir okkur til að reyna að vanda okkur enn frekar við afgreiðsluna hér í þinginu.