142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[14:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Fyrir liggur í málinu nefndarálit frá allsherjar- og menntamálanefnd á þingskjali 27.

Hv. þingmenn, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Unnur Brá Konráðsdóttir, og nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd, hv. þm. Guðbjartur Hannesson og Svandís Svavarsdóttir, hafa þegar farið yfir þau sjónarmið, bæði nefndarálitið sjálft og þau sjónarmið sem komu fram í nefndinni í málinu og gerðu það ágætlega. Segja má kannski um málið að það er svolítið sérstakt að því leyti til að það lætur ekki mikið yfir sér. Við fyrstu sýn er erfitt að segja annað en að maður styðji þetta mál og það sé hið besta mál. Það kom einnig fram í máli hv. þingmanna sem ég vísaði til, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar og Svandísar Svavarsdóttur. Þau skrifa undir nefndarálitið, fulltrúar þessara tveggja flokka og fulltrúi Bjartrar framtíðar sömuleiðis. Í nefndarálitinu er lagt til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Svandís Svavarsdóttir skrifar undir mál þetta með fyrirvara sem lýtur að því að þrátt fyrir að yfirlýst markmið frumvarpsins, um að greiða fyrir afgreiðslu dómstóla á málum sem hafa fordæmisgildi um uppgjör gengistryggðra lána, sé í sjálfu sér eftirsóknarvert, enda mikilvægt að þeim málum sé flýtt eins og kostur er, hefur komið fram að dómstólar hafa þegar sett þessi mál í forgang. Verður því ekki séð að frumvarp þetta breyti miklu um núverandi stöðu, hvorki fyrir málsaðila né fyrir dómstólana sjálfa.“

Þetta er kannski kjarni málsins. Þó að málið líti ágætlega út og lúti að flýtimeðferð er ekki víst að það hafi í sjálfu sér mikil áhrif á þá stöðu sem nú er, kannski hvorki fyrir þá aðila sem kynnu að vilja láta reyna á rétt sinn fyrir dómstólum né fyrir starfsemi dómstólanna sjálfra. Þó eru nú ýmis álitamál uppi.

Þegar umsagnir um málið eru skoðaðar kemur fram að margvíslegar ábendingar eru frá umsagnaraðilum, meðal annars frá dómstólaráði og frá laganefnd Lögmannafélags Íslands, frá Samtökum iðnaðarins, svo að dæmi séu tekin, þar sem beinlínis eru lagðar til breytingar á frumvarpinu til að skýra efni þess betur og í því augnamiði að ná betur markmiði frumvarpsins, eins og umsagnaraðilar gera grein fyrir í umsögnum sínum.

Þau álitamál eru kannski ekki mjög mikið reifuð í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar, því miður. Þeim eru ekki gerð ítarleg skil. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Fram kom í máli umsagnaraðila að til þess að tryggja að mál sem frumvarpinu er ætlað að ná til fái raunverulega flýtimeðferð færi betur á því að vísa um meðferð til XIX. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, um flýtimeðferð. Nefndin ræddi þetta nokkuð og bendir á að fái mál flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna, er dómara m.a. heimilt að ákveða styttri þingfresti en ella. Nefndin vill í þessu sambandi árétta þau sjónarmið sín að flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna er ekki til þess fallin að henta slíkum ágreiningsmálum sem hér um ræðir þar sem þau eru í flestum tilfellum umfangsmikil og flókin en fram kom í umsögn dómstólaráðs að við Héraðsdóm Reykjavíkur eru til meðferðar um það bil 60 mál af framangreindum toga.“

Hér er nefnd þessi umsögn og ábending dómstólaráðs. Nefndin segir í nefndaráliti að hún telji að tilvísunin í XIX. kafla laganna um meðferð einkamála sem dómstólaráð gerir tillögu um henti ekki málum af þessum toga, en það er í raun og veru ekkert útskýrt frekar í hverju það felst, af hverju það hentar ekki. Vel kann að vera að það hafi verið rætt í nefndinni en það hefði verið gagnlegt fyrir okkur þingmenn sem eigum ekki sæti í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að fá það útskýrt í nefndarálitinu svo að við getum áttað okkur betur á því hvað það er sem veldur því að ekki þykir henta að taka þessa umsögn eða ábendingu úr umsögn dómstólaráðs til eftirbreytni.

Í umsögn dómstólaráðs segir, með leyfi forseta:

„Hins vegar vill dómstólaráð vekja athygli á því, að verði dómsmál, sem lúta að ágreiningi um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða uppgjöri slíkra skuldbindinga, tekin fram fyrir önnur mál sem þegar eru til meðferðar hjá dómstólunum, mun málsmeðferð þeirra síðarnefndu óhjákvæmilega dragast að óbreyttum mannafla. Við Héraðsdóm Reykjavíkur eru nú til meðferðar um það bil 60 mál af framangreindum toga og hefur dómstjóri við dómstólinn um nokkurt skeið lagt á það áherslu að gerðar verði nauðsynlegar ráðstafanir til að leysa úr þeim málum, ásamt öðrum umfangsmiklum málum sem þangað hafa borist á síðustu mánuðum, m.a. með tímabundinni fjölgun dómara. Að öðrum kosti telur hann að stefnt geti í að málsmeðferðartími lengist verulega.“

Þrátt fyrir að við viljum gjarnan fá niðurstöðu sem allra fyrst í þau mál sem frumvarpinu er ætlað að mæta er það líka áhyggjuefni ef það kemur beinlínis niður á málshraða í öðrum málum sem líka kunna að vera brýn. Mörg þeirra eru það. Þar með er auðvitað ekki sagt að þau mál sem þetta frumvarp tekur til séu ekki brýn, en ekki má gleyma því að það eru önnur mál sem líka þurfa úrlausn og mörg hver eru áríðandi og aðkallandi. Ég mundi hafa áhyggjur af þessu. Enda bendir nefndin á að nauðsynlegt sé að fylgjast með því hvaða áhrif þessi breyting hefur á starfsemi dómstólanna.

Ég les það út úr nefndarálitinu hafandi ekki verið í nefndinni eða við umræðu um málið þar að nefndin geri sér grein fyrir því að samþykkt frumvarpsins geti haft áhrif á önnur mál og málshraða þeirra og þess vegna þurfi að fylgjast með því hvaða áhrif þetta hefur á starfsemi dómstólanna.

Ég vakti máls á því í andsvari við hv. þm. Guðbjart Hannesson fyrr í umræðunni hvort það hefði komið til umfjöllunar í nefndinni hvernig ætti að ráða bót á því álagi sem er í dómskerfinu. Ég held að við getum flest tekið undir að það er þekkt til dæmis með stofnun sérstaks millidómstigs sem oft hefur borið á góma, en það mun ekki af svörum hv. þingmanns að dæma hafa verið nefnt eða rætt sérstaklega í nefndinni. Ég tel fullt tilefni til þess að nefndin fjalli um það, fái að minnsta kosti upplýsingar um það hjá hæstv. innanríkisráðherra hvort einhver sérstök vinna er í gangi við þau málefni á vegum ráðuneytisins. Ég verð ekki var við annað úr þessum geira, frá dómurum eða starfandi lögmönnum, en að lögð sé mikil áhersla á að menn fari í vinnu við að setja á laggirnar sérstakt millidómstig.

Einnig er mjög áhugaverð umsögn um málið frá laganefnd Lögmannafélags Íslands sem er mjög ítarleg. Ég hef rennt í gegnum hana. Þar segir — kannski er einfaldast að fara bara í samantektina frá laganefnd Lögmannafélagsins — með leyfi forseta:

„1. Að mati laganefndar er regla frumvarpsins of almenns eðlis miðað við þau markmið sem ráða má af greinargerð með frumvarpinu að stefnt sé að. Til að tryggja að mál sem frumvarpinu er ætlað að taka til fái raunverulega flýtimeðferð er að mati laganefndar hentugra að vísa um meðferð til XIX. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, um flýtimeðferð. Þá væri eðlilegt að takmarka umrædda heimild til flýtimeðferðar við mál sem eru talin hafa almennt fordæmisgildi.

2. Í því sambandi vekur laganefnd athygli á að flýtimeðferð dómsmála auðveldar ein og sér vart úrlausn allra tilvika, enda kunna lántakar oft að standa frammi fyrir öðrum og veigameiri hindrunum en málshraða fyrir dómi.“

Þetta er að því er varðar tilvísun í XIX. kafla laganna um meðferð einkamála sama athugasemd og dómstólaráð gerir við frumvarpið. Eins og ég nefndi áðan finnst mér eins og allsherjarnefnd hafi, að minnsta kosti ekki í nefndarálitinu, svarað því með viðhlítandi hætti af hverju ekki er tekið tillit til þeirrar umsagnar. Ég álít og hefði talið að þegar koma svona ákveðnar athugasemdir og jafnvel hreinar breytingartillögur frá aðilum sem vinna í þessum geira, dómstólaráði og Lögmannafélaginu, að hlusta ætti á þau sjónarmið sem þar koma fram og jafnvel að gera viðhlítandi breytingu á frumvarpinu til að það nái betur markmiði sínu, því að ég held að við séum sammála um markmið frumvarpsins eins og það er lagt fram. Mér finnst þetta ekki koma nægilega skýrt fram af hálfu nefndarinnar í nefndarálitinu.

Fróðlegt hefði verið að heyra — af því nú búum við svo vel á hv. Alþingi eftir kosningar í vor að hér er fólk sem er að koma beint úr starfi sem starfandi lögmenn og þekkir þessi mál mætavel og veit væntanlega hvar skórinn kreppir og hvað það er nákvæmlega sem þyrfti að gera til að menn næðu því markmiði sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Og þekkir jafnframt líka til starfsemi dómstólanna og veit væntanlega hvort og hvaða áhrif þetta gæti haft á önnur mál sem rekin eru fyrir dómstólunum og hvort lagagreinin eins og hún er hugsuð eða sett fram í frumvarpinu sé nógu hnitmiðuð miðað við markmið frumvarpsins.

Í umsögn Lögmannafélagsins, ég hygg líka í umsögn Samtaka iðnaðarins, er vakin athygli á því að frumvarpið sé allt of almenns eðlis og tryggi þar af leiðandi ekki að þeim málum sem því er ætlað að mæta verði í raun hraðað fyrir dómstólum. Ef það er þannig að umsagnaraðilar meta þetta svo að menn nái ekki markmiði laganna með þessum breytingum þá hef ég áhyggjur af því að það geti leitt til þess að markmiði frumvarpsins verði ekki náð, en á sama tíma leiði það til óþarfa tafa á úrlausnum annarra brýnna dómsmála.

Þetta er sjónarmið sem mér finnst eiga heima í þessari umræðu. Mér fyndist fróðlegt að heyra frá þingmönnum sem þekkja mjög glöggt til starfa dómstólanna og þess hvernig svona mál ganga fyrir sig í raun og veru frá degi til dags, hvernig þau eru rekin og hvað frestirnir eru miklir og hvað sú heimild sem sett er í frumvarpið þýðir, þ.e. heimildir dómara til að stytta fresti sem gefnir eru. Um áfrýjunarfresti, mér sýnist á umfjöllun í málinu að til dæmis lánastofnanir nýti nánast í öllum tilvikum þriggja mánaða áfrýjunarfrest. Og augljóst er að ef menn væru að tala um að flýta þyrfti meðferð þeirra mála þyrfti að taka á því. Á móti kemur að það hljóta líka að vera einhver takmörk fyrir því hvað menn stytta fresti af þessum toga til að ganga ekki á rétt málsaðila þannig að þeir geti haft ásættanlegan tíma til að gera það upp við sig að fara í gegnum dóma undirréttar áður en þeir taka ákvörðun um hvort þeir vilja áfrýja eða ekki.

Þetta er svona samhengi hlutanna sem mér finnst mikilvægt að setja málið aðeins í. Ég vil eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir lýsa því að ég styð frumvarpið og ég mun greiða því atkvæði. En það eru álitamál uppi sem hafa komið hérna fram og við höfum verið að rekja sum hver í umræðunni sem mér finnst ekki nægilega tekið á í umfjöllun allsherjarnefndar, sérstaklega af því að nefndin fellst ekki á þau sjónarmið sem koma fram, afgreiðir þau í rauninni án þess að rökstyðja það sérstaklega, segist bara hafa komist að annarri niðurstöðu en útskýrir ekki hvers vegna það er niðurstaða nefndarinnar.

Mér finnst að menn þyrftu að geta glöggvað sig aðeins betur á þessu af því að markmið frumvarpsins er algerlega skýrt. Það er, eins og kemur fram í upphafi í athugasemdum við frumvarpið, með leyfi forseta:

„… að unnið verði að því að dómsmál og önnur ágreiningsmál sem varða skuldir einstaklinga og fyrirtækja fái eins hraða meðferð og mögulegt er þar sem óvissu um stöðu lántakenda gagnvart lánastofnunum verði að linna. Er frumvarp þetta liður í því að fullnægja þessu markmiði.“

Meðal þeirra athugasemda sem koma einnig fram í umsögnum er að þetta nái til allra mála og ekki endilega að miða sérstaklega við þau mál sem gætu haft fordæmisgildi, gætu verið fordæmisgefandi. Auðvitað kunna dómsmál sem eru rekin í þessu efni vera af ýmsum toga. Sum geta lotið að mjög afmörkuðum þáttum sem eru sérstaklega fyrir það tiltekna tilvik og hafa ekki endilega fordæmisgefandi fyrir aðra, en önnur mál eru augljóslega þess efnis að þau geta haft ríkt fordæmisgildi, og þá finnst manni einhvern veginn að það mætti hugsa sér að þessu markmiði um flýtimeðferðina ætti að beina sérstaklega að slíkum málum, að minnsta kosti fyrst um sinn.

Síðan er annað álitaefni uppi, það er um gildistökuna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lög þessi öðlist þegar gildi og falli úr gildi 1. janúar 2015. Þau sjónarmið koma einnig fram í umsögnum. Í einni umsögninni er lagt til að gildistíminn verði ári lengri, þ.e. til 1. janúar 2016. Í öðrum umsögnum er lagt til að þetta verði varanlegt úrræði, sem sagt varanleg grein og ekki tímabundin við upphaf ársins 2015 eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Mér þætti líka fróðlegt að heyra frá fleiri þingmönnum, sérstaklega þeim sem gerst til þekkja, eins og ég nefndi áðan, í þessum málarekstri hvaða viðhorf þeir hafa til þessa.

Þetta eru þau sjónarmið sem ég mundi vilja leggja inn í umræðuna. Ég ítreka og tel að frumvarpið hljóti að fá brautargengi hér á þingi og góðan stuðning, að minnsta kosti gerum við það í mínum þingflokki. Ég heyri það á öðrum þingflokkum í stjórnarandstöðunni að sama viðhorf er þar. En það breytir ekki því að menn þurfa kannski aðeins að velta fyrir sér hvort markmiði laganna væri betur náð með öðrum hætti og hvort afleiðingarnar geti orðið þær að önnur brýn mál tefjist í kerfinu.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson benti sérstaklega á mál eins og til dæmis kynferðisafbrotamál sem við mundum heldur ekki vilja að mundu líða fyrir það að önnur mál væru tekin fram fyrir. Þess vegna kemur það viðhorf upp að ef til vill þyrfti þetta að vera hnitmiðaðra og beinast sérstaklega að málum sem hefðu mikið fordæmisgildi.

Herra forseti. Þetta eru þau sjónarmið sem ég vil koma á framfæri í þessari umræðu og fleiri þingmenn hafa tekið undir. Ég ítreka að mér þætti fróðlegt að heyra frá lögfróðu fólki í þingsal, sérstaklega fólki sem er að koma beint úr lögmennsku hvaða viðhorf það hefur til þessa máls og hvort það hefur einhver sjónarmið inn í umræðuna sem gagnleg gætu verið.