142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[14:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. nefnd fyrir ágæta vinnu hennar að málinu og umfjöllun og umsagnaraðilum fyrir þeirra hlut. Þar eru auðvitað uppi ýmis sjónarmið sem fyrr í þessu máli. Sérstaka athygli vekur umsögn Lögmannafélagsins sem er kannski um að fara leið ekki ósvipaða því sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson lagði til snemma á síðasta kjörtímabili og ég tók glaðlega undir þegar það kom fram að full ástæða væri til þess að fara í. Við nánari athugun og eftir samráð við réttarfarsnefnd og dómstólaráð var á sínum tíma komist að þeirri niðurstöðu að mestum árangri yrði náð með því að fá aðila til þess af fúsum og frjálsum vilja í völdum málum að fallast á að stytta fresti sína. Erfitt væri að taka þá af þeim einhliða með lögum, auk þeirra sjónarmiða um víðfeðmi og flækjustig í þessum málum, sem hv. þm. Brynjar Níelsson vakti athygli á hér áðan, og gerði að verkum að slík aðferð hefði trauðla hentað við úrlausn þeirra mála.

Hins vegar verður að segja eins og er að það hefur gengið allt, allt of hægt að leysa úr þessum málum þótt það sé að vísu, sem betur fer, trúlega að verða að baki, en það hefur tekið allt of langan tíma. Það er mikilvægt að við reynum að draga af því lærdóma og átta okkur á því með hvaða hætti megi standa betur að löggjöfinni fyrir fram því að ýmislegt í þessu er örðugt að laga eftir á, enda ekki alltaf auðvelt að tryggja eftir á. Við þurfum því að hugsa fyrir því áður en það gerist og tryggja að tæki séu til staðar til þess að taka á svona málum ef og þegar þau koma upp. Ég held að mikilvægt sé að eðlilegt aðhald sé með fjármálafyrirtækjunum og stjórnendum þeirra sem eru að sýsla um þessi mál vegna þess að auðvitað er það þannig að þeir búa við það á annan bóginn að vera með kröfuhafa eða eigendur sem þeir geta vænst þess að sæki á þá bótamál ef þeir halda ekki rétti þeirra til haga til hins ýtrasta. Það væri kannski eðlilegt að sams konar þrýstingur væri úr átt neytandans, þ.e. kröfur um það af hálfu löggjafans að óheimilt sé, og geti varðað sektum, að ganga of langt gagnvart neytandanum.

Ýmsir hafa orðið til þess að fullyrða að slíkar heimildir séu í sjálfu sér fyrir dómstólana að ákveða. Ég held að margt bendi til þess að dómstólarnir hafi nægilegar heimildir til þess, ef látið væri á það reyna, að beita sektum í slíkum efnum ef um vanrækslu eða vítaverðar aðgerðir af hálfu stjórnenda væri að ræða.

Það hefur líka verið vakin athygli á því að frændur okkar Danir hafa heimildir í lögum sínum til þess að víkja stjórnendum úr fjármálafyrirtækjum ef þeir ganga gróflega á rétt neytenda. Ég held að það sé sömuleiðis eitthvað sem væri eðlilegt að við ræddum hér, ekki endilega til þess að beita því heldur einfaldlega til þess að það veitti eðlilegt aðhald hinum megin frá. Það er alltaf tilfellið með stór fjármálafyrirtæki og sterka eigendur þeirra annars vegar og almennan borgara sem hefur ekki sérþekkingu, hvorki á sviði fjármálaviðskipta né á sviði lögfræði, hins vegar að það getur verið býsna ójafn leikur og það á auðvitað að vera hlutverk okkar hér á löggjafarþinginu að rétta þann hlut.

Nú hefur sem betur fer með úrlausn mála í Hæstarétti á síðasta ári fengist nægileg niðurstaða til þess að þegar í vetur ákváðu þrjú af fimm helstu fjármálafyrirtækjunum í erlendum lánum að endurreikna sín lánasöfn og réðust í það verk og gerðu, eftir því sem ég best veit, í meginatriðum eins og við mátti búast. Þar var um að ræða Íslandsbanka, Arion og Dróma, sem hefur bæði farið með lánasafn Frjálsa fjárfestingarbankans og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Þarna hafa verið endurreiknuð þúsundir og aftur þúsundir lána og auðvitað hafa mörg hver tekið miklum breytingum og fátt undanskilið þar, þó kannski stærst að Íslandsbanki telur að húsnæðislán sín séu að mestu leyti lögmæt erlend lán og vísar til dóms Hæstaréttar þar að lútandi frá 9. júní 2011.

Það sem út af stóð hér í vor var fyrst og fremst Landsbanki Íslands sem var ákaflega tregur til að lesa dóma Hæstaréttar og framfylgja þeim niðurstöðum sem voru augljósar þar og komu meðal annars fram í þeirri lögfræðilegu úttekt sem Samtök fjármálafyrirtækja létu gera eftir febrúardóminn í svokölluðu Elvíru-máli á árinu 2012. Þar voru þeir færu lögfræðingar sem Samtök fjármálafyrirtækja höfðu fengið til verksins algerlega skýrir um að fordæmisgildi febrúardómsins væri þá þegar mjög víðtækt og hefði mikil áhrif, en Landsbankinn hefur allt fram á þennan dag leitast við að túlka dómana eins þröngt og að hann nái til eins fárra og bankinn hefur mögulega getað. Það hefur raunar verið með miklum ólíkindum að stærsti viðskiptabanki landsins skuli hafa treyst sér til að túlka mál með þeim hætti gagnvart viðskiptavinum sínum og hlýtur það að hafa nokkur áhrif á stöðu bankans á markaði og almenna viðskiptavild hversu tregur hann hefur verið til í þeim efnum.

Að gengnum fyrst Borgarbyggðardómnum og síðan dómi meðal annars í Plastiðjumálinu verður ekki betur séð en komnar séu þær lyktir í dómsmál að Landsbankinn geti ekki lengur vikist undan og hljóti að ganga í endurútreikning, líka á lánum til skemmri tíma, líka á lánum sem ekki hefur verið greitt jafn oft af og hann takmarkaði sig við, líka af bílalánum o.s.frv. Dómarnir ná til þeirra lánasamninga sem eru ólögmætir þar sem var komin á ákveðin festa í framkvæmd, var kannski búið að borga af 15 sinnum, hygg ég að hafi verið í Borgarbyggðardómnum, sú festa sem var ákveðin þar, og að minnsta kosti þeir samningar þar sem menn hafa greitt af svo oft eða oftar eiga þeir þennan rétt.

Hitt hlýtur líka að vera sérstakt umhugsunarefni að bankarnir lýstu margoft yfir: Ekki gera ekki neitt. Þeir hvöttu viðskiptavini sína til að koma inn og gera breytingar á samningum sínum, skilmálabreyta og þar fram eftir götunum og lýstu því yfir að fólk mundi aldrei tapa á því að gera það. Auðvitað er það alveg skýlaus krafa og þarf að ganga eftir því. Það hefur sem betur fer verið yfirlýst, a.m.k. af hálfu sumra fjármálafyrirtækjanna, að þau hafi í framkvæmd látið neytendur njóta þess, ef fólk hefur komið inn og samið um greiðslur standi það ekki verr en þeir sem greiddu af lánunum heldur njóti þeir viðskiptavinir sama réttar. Ég held að mikil krafa sé um það í skuldauppgjörinu í samfélaginu öllu að það séu ákveðnar grundvallarjafnræðisreglur sem eru virtar.

Ég hef ekki tekið til umfjöllunar hér það fyrirtæki sem hefur valdið mestum vandkvæðum og er fyrirtækið Lýsing. Það er með prófmál nú fyrir héraðsdómi sem ég hygg að sé aftur til fyrirtöku í þessari viku. Það var komið til dómara en dómarinn hefur séð tilefni til þess að kalla til málsaðila og leita eftir nýjum upplýsingum frá þeim áður en dómur gengur í því máli. Í framhaldinu ætti að vera að vænta héraðsdóms í því máli og síðan hæstaréttardóms tiltölulega fljótlega í haust sem ætti þá að skera úr um lögmæti lána þess félags og taka af öll tvímæli um það hvaða lán félagið þarf að endurreikna gagnvart viðskiptavinum sínum.

Auðvitað verður síðan öll sú atburðarás sem var með gengislánin til þess að vekja mjög spurningarnar um jafnræðið. Það er því ánægjulegt að málefni heimila með verðtryggð íslensk lán skuli hafa verið sett á dagskrá þingsins þótt það sé heldur mikið á huldu í þingsályktunartillögu hæstv. forsætisráðherra hvað standi til að gera í þeim efnum. Það er auðvitað hróplegt að þeir sem voru að taka verðtryggð íslensk lán á sama tíma og aðrir voru að taka gengislán eru eftir þessa dóma og endurútreikninga í svo miklu, miklu, miklu verri stöðu en gengislánahópurinn. Það verður auðvitað enn þá sárgrætilegra þegar litið er til þess að þeir sem fengu gengislán voru þeir sem höfðu háar tekjur og mikið veðrými í eignum sínum, þ.e. sá hluti samfélagsins sem stendur betur bæði eignalega og tekjulega. Það er sem sagt niðurstaðan úr skuldauppgjörinu, að óbreyttu, að sá hópur sem stendur hvað best eignalega og tekjulega í samfélaginu hefur fengið miklu meiri eftirgjafir og leiðréttingar á lánum sínum en venjulegt launafólk með lítið eigið fé sem fylgdi þeim almennu leikreglum sem Alþingi hafði sett þeim, fór inn í Íbúðalánasjóð og tók verðtryggt íslenskt lán innan þeirra marka og reglna sem eru settar og hlýddi aðvörunum peningastefnunefndar Seðlabankans um að reisa sér ekki hurðarás um öxl o.s.frv.

Það er auðvitað staða sem er illa viðunandi og alveg ljóst að koma verður til móts við þennan hóp með einhverjum hætti, svo gríðarlega mikill aðstöðumunur sem þetta er orðinn. Síðast í morgun í hv. efnahags- og viðskiptanefnd vísaði Félag fasteignasala í dæmi hér suður með sjó af láni sem hefði verið tekið á húseign upp á 20 millj. kr. í erlendri mynt. Það hefði síðan hækkað í 44 milljónir þegar verst lét, en nú eftir endurreikning stæði það í 15 milljónum, lán sem stóð upphaflega í 20 milljónum. Það vita auðvitað allir að sá sem tók 20 millj. kr. verðtryggt íslenskt lán á sama tíma er að glíma við miklu hærri fjárhæð en 20 milljónirnar, hvað þá heldur en 15 milljónir, eftir alla þá verðbólgu sem hefur verið á þessum tíma.

Það er full ástæða til þess að velta því fyrir sér í hv. nefnd hvort ætti að herða enn betur á hér. Ég held að það sem hv. þm. Brynjar Níelsson hefur nefnt um áfrýjunarfrestina sé eitthvað sem þurfi að taka til sérstakrar skoðunar í nefndinni á milli 2. og 3. umr.

Síðan hlýtur það auðvitað að vera nauðsynlegt athugunarefni og kalla á opinbera rannsókn hvernig fjármálafyrirtækin hafa staðið að úrvinnslu þessara mála. Getur verið að í einhverjum tilfellum hafi réttur verið hafður af neytendum með því að láta fólk skrifa undir skilmálabreytingar, samþykkja ný form eða gera einhverjar breytingar, neita að fallast á augljós fordæmi, endurreikna ekki lán gagnvart viðskiptavinum sem eru fákunnandi um rétt sinn, synja um endurútreikning með bréfi og ætlast til þess að viðskiptavinirnir fái sér lögfræðing og sæki mál af fullri hörku á sér miklu sterkari aðila? Það mætti minna á þá ágætu mynd Rainmaker þar sem tryggingafélag hafði það einfaldlega sem vinnureglu að hrekja frá sér kröfur með því að hafna þeim á kerfisbundinn hátt.

Með hvaða hætti hefur verið staðið að þessum málarekstri gagnvart neytendum? Þetta er orðin svo löng saga og svo langt gengið gagnvart mörgu fólki að ég held að það sé fyllilega ástæða fyrir okkur til að íhuga hvort það þurfi þótt ekki sé nema eftir á rannsóknar við.

Það er rétt að hafa í huga í þessu efni að lengi fóru fram ólögmætar eignasviptingar hér á götum borgarinnar og kaupstaða um land allt þar sem fólk var vörslusvipt eignum sínum án dóms og laga þar sem einhver hlutafélög úti í bæ ákváðu að þeim væri heimilt að fara og gera upptækar eigur einstaklinga án þess að leggja það fyrir sýslumann eða héraðsdóm eða gera nokkurn skapaðan hlut í þá veruna. Þeir fóru bara heim til manna og hirtu bílinn af fólki, þess vegna með persónulegum einkamunum í bílnum af hvaða tagi svo sem var, án þess að hafa til þess nokkrar heimildir. Ég held að þær aðfarir að fólki, þar sem var verið að fara heim að fólki að næturlagi og svipta það eignum sínum án laga og réttar — en Alþingi stoppaði sem betur fer með löggjöf sem við stóðum saman að í efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta kjörtímabili — þær óhæfu aðgerðir sýni svo ekki verður um villst að allt of oft var allt of langt gengið gagnvart skuldurum í því efni.

Það varð því miður til þess að ýmsir misstu eignir sínar og sannarlega eru þar einhverjir sem gerðu það að ósekju. Það er auðvitað mikil ábyrgð þeirra manna sem hafa gengið þannig fram með ólögmætar kröfur á viðskiptavini sína ár eftir ár.