150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[16:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir spurninguna. Mig langar að velta upp við hv. þingmann hvort það sé ekki rétt hjá mér að Evrópusambandið hafi sett Bretum ákveðin skilyrði, hálfgerð afarskilyrði, varðandi landamæraeftirlit svo eitt dæmi sé nefnt. Er það ekki þannig að þeir hafa lagt höfuðáherslu á að Bretar gangi í rauninni að þeim kostum sem þeir hafa lagt upp þegar kemur að viðskiptum, frjálsri för fólks o.s.frv.? Við í utanríkismálanefnd höfum svo sem ekki fengið mikið yfirlit yfir nákvæmar kröfur Evrópusambandsins heldur höfum við þurft að leita eftir því að sjálfsögðu. Við höfum reyndar fengið minnisblöð þar sem þær viðræður sem hafa farið fram voru viðraðar en bara með því að fylgjast með, svo dæmi sé tekið, evrópskum vefsíðum sem fjalla um þessi mál sér maður alveg hver skilyrðin eru. Við höfum líka getað flett upp og séð drögin sem hafa verið lögð fram. Það er mín tilfinning að þarna séu menn að beita óbilgirni. Tónninn í Evrópusambandinu þegar forsætisráðherra Bretlands ákveður að stilla sér ekki upp með forsætisráðherra Lúxemborgar — hvað gerir forsætisráðherra Lúxemborgar þá? Hann talar niður til kollega síns, gerir lítið úr honum. Mér finnst það ekki gott en kannski er það bara eðlilegt í samskiptum þessara ríkja.

Ég upplifi þetta þannig, hv. þingmaður, ég bendi t.d. á landamæraeftirlitið og það allt saman, að reynt sé að gera það eins erfitt og hægt er. Það verður samt ekki af Bretum tekið að vandinn er kannski fyrst og fremst heima fyrir og það sagði ég líka í ræðu minni.