150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[16:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum fyrir góða umræðu. Mín skoðun er sú að umræða um utanríkismál sé að verða meiri og betri í þingsölum og ég held að það sé mjög skynsamlegt. Það skiptir máli fyrir okkur að fylgjast vel með því sem gerist annars staðar og vera meðvituð um hvað við eigum t.d. mikið undir alþjóðalögum og alþjóðasamskiptum. Þar heyrist mér vera samhljómur.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég hlustaði á orðaskipti hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar og hv. þm. Loga Más Einarssonar — og ég þakka þeim báðum fyrir hlý orð í garð utanríkisþjónustunnar og undirritaðs — fór ég að hugsa um hvað við erum rosalega heppin. [Hlátur í þingsal.] Við vorum rétt þjóð á réttum stað þegar EES-samningurinn var gerður. Ég þarf ekki að vera alveg sammála öllu sem kemur frá hv. þm. Loga Má Einarssyni en við sem lítil þjóð erum í EFTA, höfum aðgang að stærsta markaði okkar enn þá, sem er ESB-markaðurinn, í gegnum EES, sem veitir okkur fjölmörg réttindi en á sama tíma getum við átt viðskipti við allar þær þjóðir sem við eigum í viðskiptum við. Við erum með viðskiptafrelsi sem er okkur Íslendingum alveg gríðarlega mikilvægt. Við getum alveg borið saman fríverslunarnet okkar við alla og bent á að það er mjög gott. Við vorum bara núna í gegnum EFTA að ganga frá viðskiptasamningi við Indónesíu og Mercosur og erum auðvitað með mjög öflugt viðskiptanet. Vonandi náum við árangri í þeim tvíhliða samskiptum sem við eigum í, t.d. við Bandaríkin og Japan og fleiri þjóðir. Þetta gerum við allt m.a. vegna þess að við erum lítil þjóð. Það eru líka kostir við að vera lítil þjóð. Það er enginn hræddur við litla þjóð. Þegar það hefur verið gerður viðskiptasamningur við Ísland er enginn heima fyrir, sama í hvaða landi það er, sem hugsar: Nú koma Íslendingar og taka þetta allt saman yfir. Ég gleymi því aldrei þegar ég fór til Malasíu með þingmannanefnd EFTA og við hittum þingmenn frá því landi og þar voru tveir fánar, malasíski fáninn og ESB-fáninn. Það má rétt ímynda sér hvort undirritaður hafi verið mjög glaður að sjá ESB-fánann en hann var umsvifalaust tekinn niður og útskýrt að við værum alls ekki í Evrópusambandinu. Þeir voru mjög þungir á brún þegar við mættum en þá lifnaði yfir þeim. Það var allt annað mál að eiga við þessar fjórar þjóðir, því að þeir hafa varann á gagnvart stórþjóðum og stórum viðskiptablokkum en það er enginn hræddur við Ísland. Við eigum að reyna að nýta okkur það.

Ég held líka að við eigum að læra af Brexit-ferlinu. Ég ætla ekki að fara að leggja dóm á það hverjum sé um að kenna. Það er hins vegar alveg vitað þegar kemur að Evrópusambandinu að það gætir hagsmuna sinna, sem mönnum getur fundist eðlilegt. Eitt var að það lagði mikla áherslu á að Bretar héldu áfram að borga í einhvern tíma vegna þess að Bretar borga svo mikið með sér, svipað og ef Ísland færi inn, við myndum borga mjög mikið með okkur. Sambandið sá fram á mjög alvarlega stöðu ef Bretar myndu hætta samstundis og náði samningi við þá. Á sama tíma er sambandið að hugsa að það vilji ekki skapa fordæmi þannig að aðrir fari út. Það er alveg vitað. Auðvitað eru líka uppi raddir innan Evrópusambandsins sem hafa áhyggjur af því að ef Bretar fara í mjög mikla fríverslunarsamninga um heiminn skaði það samkeppnisstöðu fyrirtækja innan Evrópusambandsins. Við höfum ekki einungis átt í samskiptum við Breta. Við eigum samskipti við Evrópusambandið og EFTA-ríkin og það er allt þekkt og ég er ekki að segja neinar fréttir.

Varðandi landamæri og samskipti í Evrópu er evrópskt samstarf lagskipt. Það er ekki aðeins ESB. Sum lönd eru í ESB, önnur ekki, sum eru í EES, önnur, ekki, sum eru í EFTA, önnur ekki, sum eru í NATO og önnur ekki, sum eru í Schengen, önnur ekki. Sem betur fer eru landamæri samt sem áður opin, þó að löndin séu ekki öll í sömu ríkjabandalögum. Sviss er t.d. ekki í ESB og ekki í EES. Það er ekkert vandamál á landamærum Sviss og Evrópusambandsins. Noregur og Svíþjóð, annað landið er í ESB og hitt er í EES. Það er ekkert vandamál þar. Menn geta spurt sig hvort þeir gætu ekki notað þær lausnir annars staðar en ég ætla ekki að fara að þvæla mér inn í það, ég hef alveg nóg á minni könnu og maður fer bara með æðruleysisbænina þegar ýmis mál koma upp. En við höfum lagt á það áherslu frá fyrsta degi við alla þessa aðila að ef það verða viðskiptahindranir í Evrópu muni það hafa slæm áhrif á alla. Það muni allir tapa á því. Við munum líka tapa á því. Ef vinaþjóðir okkar í Evrópu setja einhvers konar tollmúra eða tæknilegar viðskiptahindranir sín á milli mun það koma niður á efnahag þeirra og það mun ekki hafa góð áhrif á okkur vegna þess að við eigum mikið undir því að þeim þjóðum gangi vel. Þær kaupa af okkur bæði vörur og þjónustu og það er algerlega okkar hagur að þeim vegni vel. Það er rétt sem hefur komið fram, bæði hjá hv. þm. Loga Má Einarssyni og hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, að það skiptir miklu máli að við séum í góðum samskiptum við Breta. Það er hagur beggja að svo verði og við leggjum mikla áherslu á að við eigum gott framtíðarsamband við þá. Það er rétt ef við tökum samskiptin við þá í gengum árhundruðin að samstarfið hefur verið mjög gott en við eigum líka dæmi um dökka daga í samskiptum þjóðanna, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson velti upp annarri atkvæðagreiðslu. Það er spurning um lýðræðishugmyndir okkar allra. Hvaða áhrif hefur það á lýðræðið ef menn halda alltaf nýja og nýja atkvæðagreiðslu um sama málið? Hvað ef haldin væri önnur atkvæðagreiðsla í Bretlandi og hún færi á sama veg og sú fyrri? Ætti þá að halda þá þriðju? Ég held að eitt af því sem grafi undan Evrópusambandinu sé að menn hafa fundið að þegar farið hefur verið í þjóðaratkvæðagreiðslur og niðurstaðan ekki verið í þágu þeirra sem styðja það sem er lagt á borð hefur málinu oft verið breytt lítillega og það keyrt áfram uns niðurstaða fæst sem er þeim sem styðja Evrópusambandið þóknanleg. Ég held að það hafi ekki haft góð áhrif og hafi alið á vantrausti almennings á stjórnmálastéttinni og embættismannastéttinni. Ég er ekki að taka afstöðu til einstakra mála á hverjum tíma en ég held að við þurfum að velta því fyrir okkur vegna þess að við horfum upp á vantraust á stjórnmálastéttinni og embættismannastéttinni úti um allan heim, m.a. í Evrópu. Það hefur margoft komið fram þannig að við þurfum að hugsa þau mál.

Ég fer ekki í felur með það að sama hvað mönnum finnst um það hvort Bretar eigi að vera í Evrópusambandinu eða ekki, hverjir eigi að vera í Evrópusambandinu, Ísland eða einhverjir aðrir, menn þekkja menn skoðun mína í því, þá verður aldrei hægt að segja aftur að það sé ekkert mál að ganga í Evrópusambandið þar sem við færum bara út ef okkur líkaði ekki. Það getur enginn sagt. Bretar eru fimmta stærsta efnahagsveldi heims og það liggur alveg fyrir að Evrópusambandið sem selur meira til Bretlands en Bretland til Evrópusambandsins á mjög mikið undir því að þau samskipti, t.d. á viðskiptasviðinu, gangi vel. Samt sem áður erum við í þessari stöðu. Það hefði ekki verið auðvelt ef við hefðum einhvern tímann farið inn og sagt svo: Þetta er orðið ágætt, við ætlum að skjótast út aftur. Í mínum huga er líka alveg ljóst, og staðfestist m.a. með því að fylgjast með Brexit-málinu, að við vorum algjörlega rétt þjóð á réttum stað þegar hið stóra EFTA — því að það var stórt þá — samdi við Evrópusambandið um EES-samninginn. Hv. þingmaður nefndi að við gætum ekki aðeins tekið það besta. Ég tel að vísu að við höfum gert það með því að vera í EES. Það má deila um ákveðna hluti en því meira sem maður skoðar það, sérstaklega í ljósi þess hverjir valkostirnir eru, þeim mun augljósara er að það leikur enginn vafi á því að við vorum mjög lánsöm á þeim tíma. Við vorum í samstarfi við EFTA-þjóðirnar þegar ákveðnar þjóðir gengu í samtökin, í þessu tilfelli Svíþjóð, Finnland og Austurríki, sem var talið ómögulegt þegar menn fóru í þá vegferð að myndu ganga í Evrópusambandið út af kalda stríðinu og hlutleysisstefnu þeirra. Við vorum með í þeim hópi. Við náðum fram því sem skiptir gríðarlega miklu máli. Það stærsta einstaka var að við fengum undanþágur frá fjórfrelsinu hvað varðar fjárfestingar í sjávarútvegi. Ég held að á þessum 25 árum hefði nú einhvern tíma komið sá tími í íslenskri útgerð að það hefði verið of freistandi að selja ekki þau fyrirtæki. En stóra einstaka málið er að þetta er afskaplega hagkvæmt fyrir okkur.

Ég vil nota tækifærið aftur, virðulegur forseti, og þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni því að mér fannst þeir allir með tölu vera málefnalegir með góð innlegg og ræða mikilvægt mál. Ef allar umræður væru eins og þessi í salnum væri ástandið jafnvel betra.