150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:07]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir ræðuna en ég vil gera athugasemdir og byrja á liðnum sem við vorum að ræða rétt áðan. Það stendur skýrt í 4. lið að læknar geti ákveðið það sem þar er um að ræða. Í greinargerðinni stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Þá er einnig lagt til að læknar geti ákveðið að einstaklingar sem bersýnilega þurfi að fá vistun í hjúkrunarrými þurfi ekki að undirgangast færni- og heilsumat til að fá dvöl á viðeigandi stofnun.“

Það er verið að tala um lækna sem þýðir að þeir eru fleiri en einn. Þess vegna er þetta tekið sérstaklega fram. Við erum ekki að tala um að bara heimilislæknir geti gert þetta þannig að það fari ekki á milli mála.

Síðan er annað í þessu. Hv. þingmaður hafði áhyggjur af því að ríki og sveitarfélög væru með ónýtt hjúkrunarrými. Ég væri alsæll ef hvert einasta sveitarfélag á landinu væri með eitt ónýtt hjúkrunarrými — og engan biðlista. Það væri snilld. Þá þyrftum við ekki einu sinni að vera uppi í púlti að ræða þetta. Menn segja að færni- og heilsumatið sé flókið ferli og ekki hægt að gera það á tíu dögum en ég segi fyrir mitt leyti að ég held að það sé bara úrlausnarefni. Því fyrr sem við gerum það, þeim mun betra. Þó að gamla kerfið í þessu máli sé flókið ætti að vera auðvelt fyrir okkur að búa til nýtt og fljótvirkt kerfi og ég spyr hvort hv. þingmaður sé ekki sammála því.