151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

málefni öryrkja.

[15:37]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Málefni öryrkja hafa tíðum komið upp í þessum sal á þessu kjörtímabili og ríkisstjórnin sannarlega verið að reyna að stíga skref til að bæta hag þessa stóra og fjölbreytta hóps. Það hefur ýmislegt verið gert og það hefur að nokkru leyti verið dregið úr skerðingum en betur má ef duga skal. Hæstv. ráðherra þekkir eins og ég að af þeim u.þ.b. 4 milljörðum sem voru ætlaðir á fjármálaáætlun 2017–2021, ef ég man rétt, á ári, hefur ekki verið ráðstafað 1,1 milljarði. Því vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra: Hvenær munu þessir peningar komast til þeirra sem þarfnast þeirra? Er ekki óboðlegt að þessir fjármunir hafi setið aðgerðalausir allan þennan tíma án þess að gera þeim gagn sem virkilega þurfa á þeim að halda? Er ekki tímabært að ráðuneytið segi þingi og þjóð hvaða áform það hefur um ráðstöfun þessa fjár?

Þetta eru umtalsverðir fjármunir, sérstaklega þegar haft er í huga að þarna erum við að tala um hóp Íslendinga sem hefur upp til hópa úr litlu að spila. Það er full ástæða til að ráðherrann sé skýr í svörum með það hvenær eigi að koma þessum peningum til þeirra sem þurfa og hverjir eigi að fá þessa peninga.