154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[14:42]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og býð hana velkomna á þing. Þetta er mjög mikilvægur punktur og ég held að við eigum alltaf að tala um nýsköpunina þannig að hún sé að nýtast samfélaginu öllu og það gerum við gegnumgangandi með því hvernig við ræðum um að nýta nýsköpun inni í kerfunum okkar, eins og ég talaði um heilbrigðiskerfið. Það á líka við um félagslega kerfið, það á við í menntakerfinu, hvernig við styðjum við fólk með ólíkan bakgrunn og tryggjum að nýsköpunin styðji við fólk með fjölbreyttan bakgrunn og fatlað fólk t.d.

Það er auðvitað tekið á nokkrum þáttum í þingsályktunartillögunni, þ.e. loftslagsmálum og heilbrigðisþjónustu sérstaklega. En þetta voru góðar ábendingar hjá hv. þingmanni og eitthvað sem nefndin þarf að ræða frekar. Það er ýtt undir að nýsköpun ýti undir jöfn tækifæri og að umhverfið verði sem skilvirkast. Það er líka þannig að hugmyndir koma frá einstaklingunum sjálfum og það er fjöldi nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi sem eru einmitt að fást við þessa félagslegu þætti, þessar samfélagslegu áskoranir, hvort sem það eru félagslegu þættirnir sem hv. þingmaður nefndi eða samfélagsáskoranir sem blasa við okkur, með öldrun þjóðarinnar og í loftslagsmálum, bara til að taka tvær stórar áskoranir sem við okkur blasa. Einnig að búa til almennt gott stuðningsumhverfi nýsköpunar svo að allar þessar hugmyndir blómstri og að við í kerfunum okkar, hjá stjórnvöldum og stjórnkerfinu, nýtum þær. Það er held ég að lykillinn að því að við ýtum undir þessa félagslegu nýsköpun, eins og hv. þingmaður orðaði það.