154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[14:55]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir yfirferð sína í þessu ágæta máli. Við getum auðvitað öll fallist á mikilvægi þess að efla hugvit á Íslandi og ég ætla að fullyrða að það ríki þverpólitísk sátt um það. Það er og verður rétt forgangsröðun að leggja áherslu á að það verði burðarliðurinn í íslenskum útflutningi til framtíðar, þ.e. hugvitið, og ég ætla ekki að setja út á það efnislega. Þunginn í tillögunni felst hins vegar í að háskólasamfélagið fái tilhlýðilega athygli og alúð, hér verði rannsóknarhlutverk háskóla aukið og metnaður og hugvit virkjað í því skyni að efla þekkingu og skapa ný tækifæri fyrir vísindafólkið okkar, sem er vel.

Ég ætla ekki að rekja það frekar sem fram kemur í tillögunni heldur nota tækifærið til að vekja máls á því sem er ekki að finna í henni, sem er sívinsæll liður hér í ræðustóli Alþingis. Í aðgerðum tillögunnar er nefnilega ekki einu orði minnst á hugvísindi og sama vægi hafa félagsvísindin og þá er ég ekki að telja með þær athugasemdir sem bárust við meðferð málsins á 153. löggjafarþingi. Hér er mikil áhersla lögð á STEAM-greinar umfram annað, sem er ensk skammstöfun fyrir vísinda-, tækni- og verkfræðigreinar, auk lista og stærðfræði. Þetta eru mjög mikilvægar greinar en það er ástæða til að taka undir þær athugasemdir sem m.a. bárust frá Landssambandi íslenskra stúdenta í maí í fyrra um að þessi áhersla stjórnvalda beri þess merki að hún grundvallist á þörfum atvinnulífsins umfram kannski gæði námsins eða hag nemenda.

Atvinnulífið á nefnilega ekki að hafa forræði á þeirri þekkingarsköpun sem á að eiga sér stað innan háskólanna. Ef háskólanám og rannsóknarstarfsemi innan þeirra þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að snúa hjólum atvinnulífsins og á forsendum þess þá getur það ekki síst haft áhrif á sjálfstæði háskólanna. Það er eiginlega bara alveg hægt að fullyrða að það muni á endanum hafa áhrif, vegna þess að þá verða þeir jú háðir fjárveitingum fjársterkra aðila á markaði sem hafa mjög mikla hagsmuni af því að háskólar hér á landi útskrifi aðila sem munu m.a. hafa það hlutverk að hafa eftirlit með starfsemi þeirra í framtíðinni. Þetta er auðvitað nærtækt í næstum öllum fræðigreinum og ég nefni hérna félagsvísindagreinar á borð við lögfræði, hagfræði og viðskiptafræði í tengslum við opinbert markaðseftirlit sem við vorum að ræða hér áðan í sérstakri umræðu um Samkeppniseftirlitið. Þetta er auðvitað ekkert síður viðeigandi í raungreinum. Viljum við t.d. að sjávarútvegurinn sjái alfarið um að fjármagna rannsóknir og stöðugildi í háskólunum í tengdum greinum? Það er alveg hægt að halda áfram á þessum nótum.

Það er auðvitað alls ekki yfirlýstur tilgangur tillögunnar hér en við sjáum ekkert ávarpað sérstaklega um fyrirsjáanlega hagsmunaárekstra sem geta skapast að öðru leyti en því að rétt er komið inn á mikilvægi fræðilegs frelsis vísindamanna svo hægt sé að rækja samfélagslegt hlutverk háskóla með virkri þátttöku í samfélagsumræðu, m.a. til að sporna við upplýsingaóreiðu og falsfréttum. Þetta eitt og sér getur ekki verið eina áhyggjuefnið sem við veltum upp í tillögunni vegna þess að mér finnst það ábyrgðarhluti þegar jafn viðamikilli tillögu er komið á framfæri við þingheim að það sé ekki a.m.k. hugað að þessum áhættuþáttum, vegna þess að aftur þá kemur þetta bara sterklega inn á þá umræðu sem við höfum átt hér í dag um litla samfélagið okkar, um mikilvægi þess að veggir séu byggðir þegar það á við og það er bara mjög málefnalegt að gera í fákeppnissamfélagi.

Þá komum við nefnilega að kjarna málsins því að þegar við vorum að tala um upplýsingaóreiðu og falsfréttir sem eru ávarpaðar sérstaklega í tillögunni — mér finnst það einmitt kjarni málsins því að gagnrýnin hugsun er ekki afkvæmi STEAM-greina. Það eru ekki STEAM-greinarnar sem halda uppi kyndli gagnrýninnar hugsunar í þeirri miklu vegferð sem tæknibyltingin, fjórða iðnbyltingin, er að fara að valda hérna. Hún er afkvæmi hugvísindanna. Það eru hugvísindagreinar sem hvetja til hennar, hvetja til greiningarhugsunar og færni til að leysa vandamál og færni af þessu tagi er nauðsynleg til að greina og takast á við þessar flóknu áskoranir. Það er bara kjarninn í nýsköpun.

Ég vil líka nefna sagnfræði, heimspeki, bókmenntir, mannfræði og tungumál, og við þurfum siðfræðina þegar við tökum ákvarðanir um áhrif nýrrar tækni eða hugmyndasamfélagið, ekki síst þegar við innleiðum gervigreind í opinberri þjónustu, sem er nota bene bara tímaspursmál hvenær gerist.

Mig langar líka að nefna kynjafræði, félagsfræði og félagsráðgjöf. Þetta eru allt greinar sem eru kenndar í aðeins minni og oft og tíðum mun ljótari kennslustofum í opinberu háskólunum okkar heldur en í stórum sölum nýrra háskóla. Þetta eru greinar sem hafa ekki gífurlega sterkar tengingar við atvinnulífið. Við sjáum ekki auglýst eftir þessu fólki á síðum atvinnuauglýsinga og þetta eru ekki þau sem skora hæst í tekjublöðunum en háskólasamfélagið okkar er einskis virði án þeirra. Ég ætla bara að fullyrða það.

Ég ætla ekki að tala niður STEAM-greinar, ég er alls ekki að því, bara alls ekki. Þær lifa bara alls ekkert áhugaverðu lífi einar og sér. Þær bjóða ekki upp á djúpan skilning á mannlegri hegðun, viðhorfum og menningarlegu samhengi sem skiptir sköpum til að búa til vörur, þjónustu eða tækni sem á að gagnast okkar samfélagi. Nýstárlegar lausnir krefjast samvinnu þvert á ólíkar greinar. Það er rétt, það er reynt að koma inn á það, en hug- og félagsvísindi fela í sér sjónarmið sem bæta ofan á tæknilega sérfræðiþekkingu. Það verður að ávarpa það.

Ég get heldur ekki komið hingað upp og talað á þessum nótum án þess að benda á þá augljósu staðreynd að ef við ætlum að standa við gefin loforð um að tryggja tilvistarrétt íslensku tungunnar og tryggja henni lífdaga í heimi gervigreindar með vélnámi og ekki síst máltækni sem við erum á heimsmælikvarða í, við höfum séð stórkostlega hluti að fara af stað með Greyni og Emblu t.d., þá er ekki nóg að gefa út metnaðarfullar stefnur þvert á ráðuneyti og innan ríkisstjórnar, það þarf að sjá til þess að þær öðlist raunverulegt líf í verkum Alþingis og framkvæmdarvaldsins og birtist í fjárhagslegri forgangsröðun þar.

Úti um allan heim — þetta er ekki bara fagurgali í mér, ég er að endurspegla hér í dag þá forgangsröðun sem hefur verið fremsti oddi innan stefnumótunar Evrópusambandsins þar sem lögð er rík áhersla á samþættingu hug- og félagsvísinda við aðrar vísindagreinar. Ég má til með að vísa bara léttilega til athugasemda Reykjavíkurakademíunnar frá því í maí í fyrra við tillöguna á síðasta þingári en án þess að rekja það eitthvað frekar þá vil ég bara enn og aftur segja að við þurfum að lesa þetta allt saman til þess að auka samkeppnishæfni íslenskra vísindamanna í harðri alþjóðlegri samkeppni um fjármagn úr samkeppnissjóðum. Þá skiptir máli að við séum að tikka í þessi box þar sem þverfaglegt samstarf er lykillinn að velgengni og ég veit háskólamálaráðherra hefur hugsað um þetta. Það er gífurleg áhersla lögð á samvinnu innan háskólastiganna og ég fagna því. Ég vil bara svo gjarnan að við tölum um hlutina eins og þeir eru og nefnum þá að áherslan eigi að vera á hug- og félagsvísindi, rétt eins og þingmaður Viðreisnar kom inn á áðan, sem ég fagna sérstaklega. Það eru einmitt samfélagslegar áskoranir sem bara tölulegar tæknigreinar hafa kannski ekki endilega bestu svörin við. Ég er ekki að segja að fólkið þar inni sem nemur verkfræði og stærðfræði hafi ekki áhuga á samfélagslegum umbótamálum en við þurfum bara að lyfta sérfræðingunum upp til vegs og virðingar eins og þeir eiga skilið.

Virðulegi forseti. Það þarf einhver að halda kyndli hug- og félagsvísindi á lofti. Ég ætla að taka það að mér í dag. Ég gæti líka talað lengi um mikilvægi þess að hlúa að kjörum námsmanna til að styrkja háskólastigið en það verður bara að fá að bíða betri tíma. Þegar við eflum þekkingarsamfélag má ekki skilja neinar greinar eftir. Fámennir tímar í ljótum kennslustofum verða vonandi hluti af veislunni vegna þess að þeir aðilar sem þar sitja hafa mjög mikið fram að færa og eftir því sem ég fæ best séð er heldur betur nóg til á borðum. Um heimili málsins innan nefnda þá vil ég bara segja að mér finnst mjög eðlilegt að allsherjar- og menntamálanefnd þingsins fái að taka málið áfram í fangið þó að snertiflöturinn sé víðtækur. Ég hef mikinn áhuga á þessu máli og þarna er auðvitað margt jákvætt en við skulum leyfa öllum að vera með.