154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Tröllaskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar.

48. mál
[18:22]
Horfa

Flm. (Stefán Vagn Stefánsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér tillögu mína til þingsályktunar um Tröllaskaga, göng á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Tillaga þessi sem nú er flutt í annað sinn var áður lögð fram á 150. löggjafarþingi og er nú endurflutt með uppfærðri greinargerð. Tröllaskagagöng hafa mikið verið rædd á undanförnum árum á Norðurlandi öllu en tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að láta hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga. Ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum fyrir 1. febrúar 2024.“

Í greinargerð sem fylgir tillögunni er lagt til að innviðaráðherra láti hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga.

Tröllaskagagöng hafa komið til umræðu við og við á liðnum árum, eins og áður sagði. Hefur þá einkum verið rætt um tvo valkosti, annars vegar göng frá Hofsdal yfir í Barkárdal og hins vegar tvenn jarðgöng, fyrst úr Hörgárdal yfir í Skíðadal, sem er inn af Svarfaðardal, og þaðan vestur í Kolbeinsdal í Skagafirði. Einnig hefur nýlega verið bent á leið sem er undir Heljardalsheiði, sem er stysta leiðin.

Í umsögn sem barst um málið frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV, á 150. löggjafarþingi var framlagðri tillögu fagnað og þar tekið heils hugar undir þau sjónarmið sem fram komu í greinargerð. Mikilvægt sé að kannað verði til hlítar hvaða áhrif framkvæmdin kunni að hafa fyrir svæðin á Norðurlandi svo mögulegt sé að leggja raunhæft mat á hagkvæmni og samfélagsleg áhrif ganga af þessu tagi.

Í samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra frá apríl 2022, sem fjallar um samgöngumál, áherslur og forgangsröðun verkefna í landshlutanum, kemur fram að jarðgöng á Tröllaskaga séu enn meðal helstu áhersluverkefna samtakanna í samgöngumálum og leggja þau til að hafin verði rannsókn á hagkvæmni þess að grafa slík göng.

Í tengslum við aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar í upphafi þessarar aldar var ýmissa gagna aflað frá Lendisskipulagi ehf., m.a. um Tröllaskagagöng. Í gögnunum kemur fram að vegalengdir milli þéttbýlisstaða á Norðurlandi myndu styttast mikið með tilkomu ganganna. Þannig yrði vegalengdin frá Laugarbakka í vestri til Akureyrar 185 km ef farið er um Þverárfjall og göng milli Hjaltadals og Hörgárdals. Vegalengdin milli Hóla og Akureyrar yrði með tilkomu ganga kringum 60 km en er nú um 130 km. Vegur milli Sauðárkróks og Akureyrar myndi styttast úr um 119 km í um 90 og milli Blönduóss og Akureyrar úr 145 km í um 136 km og niður í 127 km með vegstyttingum á þeirri leið. Þannig lægju leiðir manna milli Reykjavíkur og Akureyrar um nær allar fjölmennustu byggðir á Norðurlandi vestra. Vegalengd milli Sauðárkróks og Húsavíkur yrði 167 km með tilkomu þessara ganga og Vaðlaheiðarganga. Verði þessi leið farin þarf ekki að fara yfir Öxnadalsheiði en vegurinn um hana liggur hæst í 540 metra hæð. Einnig færðist aðalleiðin frá Vatnsskarði þar sem vegurinn fer í um 400 metra hæð og yfir á Þverárfjall þar sem vegurinn fer hæst í 320 metra. Tvenn styttri göng, úr Hörgárdal yfir í Skíðadal og úr Skíðadal yfir í Kolbeinsdal, koma einnig til greina en þau gætu gefið enn frekari möguleika á styttingu milli þéttbýliskjarna og byggðarlaga báðum megin Tröllaskagans með tilheyrandi stækkun vinnusóknar- og þjónustusvæða.

Í umsögnum sveitarfélaganna um málið á síðasta löggjafarþingi segir:

„Snemma árs 2019 samþykktu bæjarstjórn Akureyrar og sveitarstjórn Skagafjarðar áskorun til stjórnvalda um að fjármagna grunnrannsóknir og samanburð á kostum á legu mögulegra jarðganga undir Tröllaskaga, auk rannsókna á samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkra ganga. Þar er einkum vísað til stækkunar vinnusóknarsvæða, styrkingar almennrar þjónustu og eflingar ferðaþjónustu, auk bættrar samkeppnisstöðu landshlutans.“

Í þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 er sett fram jarðgangaáætlun til 30 ára. Þar er lögð til forgangsröðun næstu 10 jarðganga á Íslandi ásamt fjórum öðrum jarðgangakostum til nánari skoðunar, en göng um Öxnadalsheiði eru þar 10. göng á lista. Jarðgöngin eiga öll það sameiginlegt að vera lykilþáttur í að treysta búsetuskilyrði um land allt og veita umferð fram hjá hættulegum og óáreiðanlegum fjallvegum.

Fjallvegurinn um Öxnadalsheiði getur verið verulegur farartálmi yfir vetrarmánuðina. Það þarf varla að tíunda þá kosti sem þessi göng hefðu í för með sér með öruggara aðgengi íbúa Norðurlands vestra að Sjúkrahúsinu á Akureyri. Auk þess að stytta leiðina yrði ekki um fjallveg að fara úr Skagafirði til Akureyrar. Rétt er að minna á í þessu samhengi að engin fæðingarþjónusta er á Norðurlandi vestra og þar með er samkeppnisstaða landshlutans sem ákjósanlegs búsetukosts fyrir ungt fólk verulega skert. Áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra þarf heldur varla að tíunda í þessu sambandi en með áætluðu millilandaflugi til Akureyrar skiptir það landshlutann verulegu máli að leiðin milli landshlutanna verði stytt og gerð greiðfærari. Stækkun vinnusóknarsvæða er landshlutanum einnig mikilvæg og möguleikar á sókn í ýmsa þjónustu myndu snarbreytast við tilkomu þessara ganga. Það er afar mikilvægt fyrir landshlutann að kostir þessarar leiðar verði skoðaðir, ekki eingöngu út frá hagkvæmni vegna styttingar vega og minni þjónustuþarfar heldur líka hver hin samfélagslegu og efnahagslegu áhrif verða á samfélögin á Norðurlandi vestra sem og á Eyjafjarðarsvæðinu.

Flutningsmenn telja mjög mikilvægt að Tröllaskagagöng verði skoðuð því eins og rakið hefur verið fram myndu göng undir Tröllaskaga fela í sér gríðarleg samgöngubót fyrir íbúa Norðurlands og aðra sem um þau fara. Öryggi vegfarenda yrði stórbætt auk þess sem slík framkvæmd myndi leiða af sér stækkun vinnusóknarsvæðis og eflingu ferðaþjónustunnar.

Með á þessari tillögu minni eru hv. þingmenn Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Logi Einarsson, Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson og Gísli Rafn Ólafsson.

Leggja flutningsmenn til að innviðaráðherra verði falið að láta hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni og gerð jarðganga á Tröllaskaga. Í þeirri vinnu verði lagt mat á bestu leiðina sem og kostnað framkvæmdarinnar. Þá yrðu samfélagsleg og efnahagsleg áhrif slíkrar gangagerðar jafnframt könnuð. Lagt er til að ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum fyrir 1. febrúar 2024.