155. löggjafarþing — 10. fundur,  26. sept. 2024.

Störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Það virðist vera svo að hér á Íslandinu góða ríki hrein og klár vargöld þegar kemur að undirheimastarfsemi og skipulagðri glæpastarfsemi. Það er orðið löngu tímabært, í stað þess að Sjálfstæðisflokkurinn tali um land tækifæranna og Framsókn segi að hér sé allt að koma, að við eflum löggæslu landsins þannig að við getum tekist á við þær hörmungar sem við erum að horfa upp á í dag. Núna nýjasta: Skipulögð glæpastarfsemi, innbrot í Elko, kostnaður eða tjón upp á tugi milljóna, þýfið ekki enn þá fundið. Við höfum aldrei séð annað eins af morðum á eins skömmum tíma og núna, aldrei nokkurn tíma í sögu landsins. Við höfum aldrei heyrt um annað eins mansal og annan eins óhugnað og við erum að takast á við núna þar sem lögreglan hefur þegar kortlagt sennilega um — eru það níu eða tíu eða ellefu eða tólf glæpahópar? Svo núna erum við komin með mafíu. Við erum með undirheimamafíu sem allir vita af nema íslensk stjórnvöld, og hvað eru þeir að gera í því? Þeir láta þetta bara danka. Það er ekki tekið á vandanum að neinu ráði og lögreglan er ráðþrota og hefur ekki mannafla til þess einmitt að ráðast að rótum vandans og uppræta hann.

Ég get aðeins sagt það að við í Flokki fólksins skulum sko ráðast að rótum vandans ef við fáum tækifæri til, það eru algerlega hreinar línur. Við í Flokki fólksins kærum okkur ekki um það að horfa á fallega landið okkar sökkva í sæ í boði þessarar ríkisstjórnar eins og það er raunverulega að gera hér og nú. Það er kominn tími til breytinga og þær breytingar er ég að boða hér og nú fyrir hönd Flokks fólksins.