155. löggjafarþing — 10. fundur,  26. sept. 2024.

almannatryggingar og endurskoðun örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

28. mál
[16:21]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Mér dettur í hug þegar forseti segir Tómas Á. Tómasson, sem er reyndar ekki rétt, það er Tómas A. Tómasson, að forsetar Bandaríkjanna í gegnum tíðina voru vísir með að bæta við staf á milli eiginnafns og föðurnafns af því að það var flott að hafa staf á milli sem þýddi ekki neitt, var ekki fyrir neitt nafn, heldur var bara á milli. Mér rennur blóðið til skyldunnar af því að ég er nú ellilífeyrisþegi eða nei, ég er ekki ellilífeyrisþegi, ég er, já, ég er ellilífeyrisþegi, ég er alla vega orðinn 75, hvað sem það heitir. Nema hvað, mig langar til að bæta aðeins við af því að Flokkur fólksins hefur mikla þörf fyrir að berjast fyrir hag þeirra sem minna mega sín og mín kenning er sú að það er svo auðvelt að taka snúning á eldra fólki af því að það hefur einhvern veginn ekki burði til að berjast við kerfið og fá réttlætinu framgengt. Hverjir voru það sem byggðu upp þetta þjóðfélag sem við búum í í dag, sem gengu í gegnum þessa erfiðu tíma upp úr síðari heimsstyrjöld sem voru ekki mjög auðveldir tímar? Ég tala nú ekki um fyrir seinni heimsstyrjöldina. Þá saup fólk dauðann úr skel, en þetta fólk sem við erum núna að berjast fyrir, ellilífeyrisþegar og öryrkjar og aðrir, þeir eru sem sagt ekki fullgildir. Þá meina ég að þeirra réttindi í lífeyrissjóðum eru miklu minni en réttindi yngra fólks af því að það byrjaði að borga í lífeyrissjóðina á allt öðrum forsendum heldur en var gert í upphafi. Þetta fólk sem við erum að berjast fyrir á ekki eins mikið inni og fær ekki eins mikið borgað úr sjóðunum og þeir sem eru ungir núna og eiga eftir að fá alveg helling úr sínum sjóðum af því að þeir geta verið með séreignarsparnað og eitt og annað. Það er svo margt sem þarf að bæta í þessu þjóðfélagi. Við höfum barist fyrir því að fólk fái annaðhvort 13. mánuðinn, helst 13. mánuðinn náttúrlega, lífeyrisþegar og öryrkjar, eða alla vega jólabónus. Það að vera að draga þetta á langinn — það er svo ósanngjarnt að láta fólkið vera í óvissu og við biðjum æðstráðendur um það að þeir taki af skarið og taki þessi ákvörðun nú þegar þannig að fólk viti hvar það stendur.

Svo vil ég líka minnast á eitt af því að formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, minntist á að til stæði að vera með starfsmat fyrir öryrkja. Gott og vel. Ég veit til þess, og ég hef sagt það áður í þessari pontu og ætla að gera það enn einu sinni. Frænka mín ein var heimilislæknir árum saman og hefur núna síðastliðin sjö ár eftir að hún hætti störfum sem heimilislæknir verið sjálfstæður verktaki. Hennar starf hefur verið fólgið í því að meta öryrkja, hvort þeir séu öryrkjar eða ekki. Hún var að segja mér að þetta væri hennar aðalstarf. Hún hittir fólk reglulega og fer yfir stöðu þess og ég átti von á einhverjum mjög svona, afsakið orðbragðið, virðulegi forseti, með leyfi forseta, djúsí sögum, að ég fengi einhverja skýrslu yfir það hvað fólk væri alltaf að reyna að svindla á kerfinu. Hún sagði að á þessum sjö árum sem hún væri búin að vera að taka þessi viðtöl við fólk sem hefur verið metið sem öryrkjar var aðeins einn á sjö árum sem hún taldi að mundi kannski ekki uppfylla skilyrðin að vera öryrki og fá örorkubætur. Þannig að það er nú ekki meira svindlið í gangi heldur en það. Ég held að það sé alveg í góðu lagi að sleppa þessu svokallaða starfsmati og láta læknana finna út úr því hvort fólk sé öryrkjar eða ekki þannig að öryrkjar geti lifað sómasamlegu lífi sem þeir eiga sannarlega skilið.