131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[10:41]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. allsherjarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að hagsmunum starfsmanna væri borgið. Landssamband verslunarmanna og Verslunarmannafélag Reykjavíkur eru á öðru máli. Ég vil hlusta á þá aðila og tel að þingið hefði betur gert það og eigi að gera það.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson segir að frumvarpið sé til þess fallið að draga úr ójafnræði innan verslunargeirans. En hann segir jafnframt að ólíkir hagsmunir takist á, annars vegar hagsmunir verslunareigenda og hins vegar hagsmunir starfsfólksins. Þótt meiri hluti nefndarinnar hafi komist að þessari niðurstöðu vil ég vekja athygli á því að hv. þm. Atli Gíslason sat fundi allsherjarnefndar sem áheyrnarfulltrúi fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð þegar hún fjallaði um málið og það kemur fram í nefndarálitinu að hann er þessu andvígur.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð tekur afstöðu í málinu. Við tökum afstöðu með starfsfólkinu og samtökum þess með Landssambandi verslunarmanna og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og við munum greiða atkvæði gegn frumvarpinu.