131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórnarskipunarlög.

177. mál
[12:49]

Einar Karl Haraldsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem er til umræðu um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins hefur vakið talsverða umræðu sem hefur verið fróðlegt að hlýða á og er ekki í fyrsta skiptið sem vakin er athygli á þessu máli á þingi.

Ég verð að segja það sem mína skoðun og það er líka skoðun landsfundar Samfylkingarinnar að hér er um afar athyglisvert mál að ræða og mál sem Samfylkingin fylgir. Í mínum huga er þetta ekki svo mikil spurning um að hvaða leyti það minnkar eða eykur ráðherraræði eða þess háttar heldur er það viðurkenning á því að við lifum í sífellt fjölbreyttara og flóknara þjóðfélagi og það verður æ brýnna að skýr aðgreining sé milli valdþáttanna. Við sem höfum fylgst með á undanförnum árum höfum upplifað miklar breytingar á dómskerfinu sem flestar ef ekki allar hafa verið til mikilla bóta og hefur verið kallað á vegna þátttöku okkar í alþjóðasamstarfi. Þar hefur aðgreiningin milli löggjafar- og framkvæmdarvalds og dómsvalds verið gerð mun skýrari en áður var. Ég tel að sú breyting sem hér er gert ráð fyrir sé af sama meiði, að ráðherrar séu ekki að taka þátt í störfum löggjafarvaldsins með eins beinum og samþættum hætti og þeir gera í dag. Það er angi af sama meiði að vilja hafa skýrari aðgreiningu þarna á milli.

Ég gef ekki mikið fyrir kostnaðarrökin í þessu samhengi vegna þess að hér er um grundvallaratriði að ræða. Það eru ýmsar leiðir til þess að taka á kostnaðarmálunum ef farið er út í það. Þegar Samfylkingin hefur verið að ræða þetta hefur breytingin verið rædd sem hluti af víðtækum breytingum á stjórnkerfinu og á Stjórnarráðinu og jafnframt á lýðræðisskipulagi landsins. Við höfum t.d. sett fram tillögur um landið sem eitt kjördæmi, sem mér heyrðist að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir væri fylgjandi eins og við. Ég tel að í tengslum við slíka breytingu mætti alveg skoða að fækka eitthvað þingmönnum. Eins finnst mér að í tengslum við breytingar á Stjórnarráðinu, stækkun og fækkun ráðuneyta, kæmi einnig til greina að fækka ráðherrum. Sú fjölgun sem hefur orðið á ráðherrum á undanförnum áratugum hefur kannski meira markast af þörfum stjórnarliða fyrir að koma mönnum í ráðherrastóla en beinlínis að verkefnin í Stjórnarráðinu hafi kallað á þá. Það eru því ýmsar leiðir til að koma fram kostnaðaraðhaldi í sambandi við þessa breytingu.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hélt því fram að aðrar leiðir væru betri til að tryggja aðhald þingsins að framkvæmdarvaldinu heldur en þessi aðgreining sem fælist í því að ráðherrar gegndu ekki þingmennsku. Hún nefndi lög um ráðherraábyrgð og rannsóknarnefndir þingsins. Ég sé ekki að þarna sé nein andstæða. Þótt sú breyting yrði að ráðherrarnir gegndu ekki lengur þingmennsku er engu að síður þörf á því að skýra lög um ráðherraábyrgð og að heimila skipan rannsóknarnefnda þingsins. Ég sé ekki að þetta stangist á með neinu móti.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði talsvert úr því að á ýmsan hátt væri hægt að styrkja þingið til að ná fram skýrari stöðu löggjafarvaldsins, styrkja starf stjórnarandstöðunnar og fleira af því tagi. Auðvitað er slík aðstoð, slík efling á þingstörfum að sjálfsögðu af hinu góða ef möguleiki er á því, en ég tel að það sem skipti máli í grundvallaratriðum er að fylgja þeirri meginreglu að greina að löggjafarvald og framkvæmdarvald. Það sem kallar á það eru fyrst og fremst breyttir þjóðfélagshættir, þróaðra samfélag og hugmyndir manna um hvernig eigi að skipa málum á þessu þróunarstigi samfélagsins, þegar við viljum að hlutirnir séu skýrir og aðgreindir. Það skiptir meginmáli í þessu. En það er ekkert gefið að það leiði endilega til bættra stjórnarhátta í sjálfu sér þó að við breytum forminu. Þar fer náttúrlega mikið eftir því hvernig menn haga störfum sínum hvernig framkvæmdin verður í reynd. Ég get tekið undir að hjá núverandi ríkisstjórn sem setið hefur lengi hafa þróast ýmsir ósiðir í samskiptum þings og ríkisstjórnar og fram hjá því munum við sjálfsagt aldrei komast að framkvæmdin verður oft öðruvísi en tilætlunin. Það verður eflaust ætíð gagnrýnis- og umræðuefni á Alþingi.