135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

orkusparnaður.

479. mál
[14:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir þessi mjög svo greinargóðu og jákvæðu svör og ég óska honum til hamingju með hvað mikið er að gerast á þessum vettvangi. (Gripið fram í.)

Nú kann vel að vera að byrjað hafi verið á því í tíð Framsóknarflokksins. Úr því að það má kenna Framsóknarflokknum um það sem illa fer þá má kannski líka þakka honum fyrir það sem vel var gert því að það kann að vera að eitthvað sé um slíkt að ræða. En látum það eiga sig.

Ég tel að hér séu afskaplega mörg og merkileg verkefni á ferðinni, þau sem hæstv. ráðherra nefndi og horfa til framtíðar og verða að sjálfsögðu langtímaverkefni og ekki er við því að búast að menn sjái beinlínis útbreidda notkun þess háttar orkugjafa alveg á næstunni. Engu að síður eiga sér þar stað mjög merkilegar tilraunir og rannsóknir.

Nú má ekki gleyma því að rafmagnið t.d. er líka auðlind sem er takmörkuð í sjálfu sér. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að við eigum nægilegan stofn eða birgðir, ef svo má segja, til þess að nýta það í þau fjölmörgu verkefni sem hér eru á ferðinni og það tengist að sjálfsögðu stóriðjustefnunni beint.

Varðandi þau verkefni sem hann nefndi sem eru meira til skemmri tíma litið þá er þar mjög margt merkilegt og spennandi á ferðinni. Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að heyra að verið er að vinna í málum eins og hönnun húsa og öðru slíku.

Ég vil einfaldlega hvetja hæstv. ráðherra til þess að vinna áfram að þessum málum. Mér kemur til hugar að hugsanlega mætti setja einhverja sérstaka átaksvinnu eða samráðsvinnu aðila sem koma að þessum málum því að það eru sannarlega margir sem gera það. Það eru ríkið og orkufyrirtækin, orkustofnanir, sveitarfélögin, neytendur, aðilar vinnumarkaðarins og rannsóknarstofnanir. Þá horfi ég kannski meira á það sem þarf að gera núna til skamms tíma, þ.e. að hvetja til almenns orkusparnaðar. Það er alveg ljóst að (Forseti hringir.) full ástæða er til þess og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að vinna að átaksverkefni í því sambandi.