140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Helga Hjörvars verð ég að segja að ég tók þátt í umræðu í gær. Ég spurði hv. þingmann spurninga í tengslum við þetta mál sem hann ber ábyrgð á og svar hv. þingmanns var einfaldlega að hann víki sér hjá því að svara, sagði það orðrétt. Það segir sig sjálft að ef hv. stjórnarþingmenn koma hingað upp og vilja ekki svara og segja: Við ætlum ekki að upplýsa um mál, þá flýtir það ekki fyrir umræðunni. Það segir sig sjálft. Hv. stjórnarþingmenn þurfa að upplýsa þing og þjóð um hvað er í gangi.

Virðulegi forseti. Það bárust okkur skelfilegar fréttir í morgun. Það er algert kjaftshögg fyrir fólk og fyrirtæki í landinu að verið sé að hækka vexti, það er algert kjaftshögg. Það eru heldur ekki góðar fréttir, virðulegir forseti, eins og kom fram, að atvinnulausum sem hafa verið lengur atvinnulausir en í sex mánuði hefur fjölgað um 724 frá því í mars. Við vitum að hér er lítil fjárfesting og við vitum að gjaldeyrishöftunum er haldið uppi með gríðarlegum tilkostnaði. Það er tifandi tímasprengja og mikil hætta fyrir fólk með verðtryggð lán. Ég held að það væri afskaplega mikilvægt ef við gætum náð sátt um að sameinast um að reyna að losa okkur úr þessu. Ég held að það ætti að vera fyrsta verkefni okkar, í stað þess að karpa um mál sem litlu máli skipta og eru til óþurftar, að einbeita okkur að risamálum eins og hvernig við ætlum að losa okkur út úr gjaldeyrishöftunum, því við verðum að gera það, og hvernig við ætlum að koma á peningamálastefnu sem tekur mið af einhverju öðru (Forseti hringir.) en úreltu kerfi sem leiðir af sér vaxtahækkanir þegar við þurfum síst á þeim að halda.