140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Peningastefnunefnd rökstuddi 0,5% vaxtahækkun með þróttmikilli eftirspurn, ekki síst fjármagnseigenda með mikla útþrá. Miklir fjármunir eru í umferð á Íslandi eða um 1.000 milljarðar og þeir fjármunir munu leita út nema ávöxtun hér á landi verði sífellt betri. Veruleiki þeirra sem eiga þessa fjármuni eru í engu samræmi við kjör almennings. Almenningur berst sífellt vonlausari baráttu við að ná endum saman og á sama tíma hækka skuldirnar vegna verðtryggingar og afborganir vegna vaxtahækkana bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Verðtryggingin og vaxtahækkanir auka fjármagn í umferð og útstreymisþrýstingurinn eykst sem kallar á enn eina vaxtahækkunina og vítahringurinn fer á stað.

Frú forseti. Röng peningastefna orsakaði hrun krónunnar, en ekki bankahrunið og hún bjó til aflandskrónuvandann. Peningastefna sem var hönnuð af núverandi seðlabankastjóra og aðalhagfræðingum Seðlabankans. Enginn þeirra hefur verið dreginn til ábyrgðar fyrir þátt sinn í hruni krónunnar. Þess í stað er þeim falið að sjá um að viðhalda ónýtri peningastefnu. Vaxtahækkanir munu framkalla í náinni framtíð enn eitt gengishrunið.

Frú forseti. Við þurfum fólk í Seðlabankann sem getur komið auga á aðra lausn á snjóhengjunni en að láta gengi krónunnar hrynja eða taka lán hjá Evrópska seðlabankanum fyrir snjóhengjunni. Fólk sem getur hannað nýja peningastefnu sem hentar bæði einhæfu útflutningskerfi og orsakar ekki hrun krónunnar.