140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður rakti ágætlega hið mikla vandræðaferli þessa máls þó að honum hafi ekki enst tími til að fara yfir þá sögu alla. Nú langar mig að biðja hv. þingmann um að leggja pólitískt mat á þá tillögu sem við ræðum hér. Hvernig telur hv. þingmaður að standi á því, í ljósi þeirrar sögu sem hann rakti í ræðu sinni, að slíkt ofurkapp skuli enn lagt á að troða þessu máli áfram eins gallað og það er orðið og markað af erfiðri sögu sinni? Hvers vegna er hamast við að troða því áfram en mikilvæg mál sem varða raunverulega hagsmuni íslenskra heimila fást ekki einu sinni sett á dagskrá? Af hverju er öllum tímanum eytt í að drösla þessu máli áfram? (Forseti hringir.) Hvert er hið pólitíska mat hv. þingmanns á því?