144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[17:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er rétt sem kom fram í nokkrum ræðum, tekjudreifing hefur orðið jafnari eftir hrun. Það er alveg rétt. Það sem hefur hins vegar gerst, og þróunin hefur verið undanfarinn áratug og lengur, er að aukinn ójöfnuður hefur orðið í eignum landsmanna, þ.e. sífellt færri eiga sífellt meira. Hér var rætt um það að fólkið í landinu þyrfti að fá raunverulegar kjarabætur. Veltum fyrir okkur af hverju fólkið í landinu er ósátt við stöðu mála. Það er af því að það horfir á aðgerðir sem miða að því að auka þennan ójöfnuð í eignadreifingu. Hæstv. forsætisráðherra segir að það hafi bara verið ákveðið að framlengja ekki raforkuskattinn. Hann var tímabundinn til að byrja með og var svo einu sinni framlengdur þannig að það er sjálfstæð ákvörðun að framlengja hann ekki áfram. Það var gripið til ýmissa tímabundinna aðgerða, eins og auðlegðarskattsins, þegar við vorum að fara upp úr öldudalnum, eðlilega. En þegar við skoðum þetta þýðir ekki alltaf að benda bara á síðustu ríkisstjórn heldur spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað honum finnist um þessa þróun þegar við horfum framan í aukinn hagvöxt. Það eru fréttirnar sem fólkið í landinu heyrir. Við heyrum fréttirnar af arði útgerðarinnar og því hvernig stóriðjan sleppur við skattlagningu og þá er eðlilegt að fólkið í landinu spyrji: Er eðlilegt að aðgerðir ríkisstjórnarinnar miði að því að létta byrðina á þessum aðilum?

Þá er ekki nema von að fólk setji fram kröfur. Það er alveg ótrúlegt, herra forseti, að heyra svo hv. þingmann Sjálfstæðisflokksins, Guðlaug Þór Þórðarson, tala hér eins og þetta sé bara einhver popúlistaumræða. Þetta er umræða um stórpólitík, um það hvernig við skiptum arðinum af auðlindunum okkar sem við höfum, a.m.k. mörg hver, viljað hafa í sameiginlegri eigu þjóðarinnar. Hvað merkir það að hafa auðlindirnar í sameiginlegri eigu þjóðarinnar? Það (Forseti hringir.) að fólk njóti góðs af þeim til jafns. Það eru stóru málin sem fólkið í landinu er að ræða núna.