149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

biðlistar eftir bæklunaraðgerðum.

[15:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. En hún svaraði ekki spurningunni: Er ekki verið að fylgjast með lyfjanotkun, ástandi, hvort fólk er vinnandi? Í viðkomandi grein segir ráðherra sjálfur að sjá þurfi til þess að þeir sem mesta þörf hafi fyrir aðgerð fari framar í röðina. Er ekkert verið að gera í þeim málum? Það er grafalvarlegt mál þegar fólk bíður svona lengi þó að hlutfallið sé komið úr 20% upp í 35% hjá þeim sem bíða í styttri tíma. En þjóðin er að eldast. Við erum að eldast. Erum við að elta skottið á sjálfum okkur? Það segir sig sjálft að við hljótum að þurfa að hafa það á hreinu að ríkið sjái til þess að ekki sé verið að vinna fólki tjón með því að dæla í það lyfjum, það sjái til þess að það fái þessar aðgerðir til að það geti haldið áfram að vinna. Það hlýtur að vera forgangsatriði.