149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. velfn. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hlutans með frávísunartillögu um frumvarp til laga um styttingu vinnutíma. Með frumvarpinu er lagt til að vinnutími sem vinna ber á dagvinnutímabili á virkum dögum vikunnar verði styttur úr 40 dagvinnutímum í 35. Við meðferð málsins fékk nefndin kynningu á tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar. Í umfjöllun Reykjavíkurborgar kom fram að með styttingu vinnuvikunnar hefði m.a. dregið úr andlegum og líkamlegum einkennum álags, starfsfólk fyndi fyrir aukinni starfsánægju og að skammtímaveikindi hefðu minnkað. Þá hafi ekki orðið breytingar á hreyfingum í málaskrám þeirra vinnustaða sem tóku þátt í verkefninu, sem bendir til þess að stytting vinnuvikunnar hafi ekki haft áhrif á afköst. Einnig kom fram við umfjöllun nefndarinnar að fleiri stofnanir og fyrirtæki hafi staðið að sams konar verkefnum um styttingu vinnuvikunnar með góðum árangri.

Í umsögnum sem bárust nefndinni kom fram töluverður stuðningur við þær hugmyndir sem liggja að baki frumvarpinu. Í umsögn Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði, kemur fram að Íslendingar vinna lengri starfsævi en fólk í samanburðarríkjum og að umfang þeirrar vinnu sé meira en í öðrum ríkjum innan OECD. Á hinn bóginn er á það bent í umsögn Félags kvenna í atvinnulífinu að samkvæmt nýlegu mati Hagstofunnar á útreikningum vinnustunda sé fjöldi vinnustunda á Íslandi um 16–22% minni en áður var talið, auk þess sem framleiðni starfsmanna sé meiri. Því séu forsendur breyttar og ekki hægt að taka að öllu leyti undir efni greinargerðar frumvarpsins. Einnig var bent á að undanfarin ár hafi fyrirkomulag vinnu breyst töluvert og með tilkomu farsíma og fartölvu væru starfsmenn sítengdir vinnu sinni. Eðlilegt væri að endurskoða lög um 40 stunda vinnuviku og vinnumarkaðslöggjöfina að öðru leyti með tilliti til breyttra aðstæðna. Hins vegar kom fram það sjónarmið að við breytingu á lögunum væri mikilvægt að tryggja víðtækara samráð milli samtaka aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.

Nefndin styður meginmarkmið frumvarpsins um að auka framleiðni og lífsgæði launafólks á Íslandi og í því sambandi bendir nefndin á að tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hafi almennt gengið mjög vel. Er því tímabært að stjórnvöld, í samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins, vinni að því að koma til móts við kröfur um breytt fyrirkomulag á vinnu. Þar sem svo víðtækt samráð hefur ekki verið haft getur nefndin ekki mælt með samþykkt frumvarpsins heldur beinir því til félags- og barnamálaráðherra að vinna markvisst að endurskoðun vinnumarkaðslöggjafarinnar með það að markmiði að auka möguleika fólks á því að koma á jafnvægi milli atvinnu- og fjölskyldulífs. Með því megi jafnframt sporna við vanlíðan og kvíða barna sem hefur farið vaxandi.

Að framangreindu virtu leggur nefndin til að málinu verði vísað til félags- og barnamálaráðherra sem skuli vinna það ítarlegar og í samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins.

Undir þetta álit skrifar sú sem hér stendur ásamt Ólafi Þór Gunnarssyni, Ásmundi Friðrikssyni, Andrési Inga Jónssyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Guðjóni S. Brjánssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur og Vilhjálmi Árnasyni.

Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk álitinu.