149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[16:23]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið er ég einn af þeim sem standa að áliti velferðarnefndar í þessu máli. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í það, en mig langar bara að ræða hvað þetta mál er gott dæmi um það hvernig umræða sem byrjar á jaðri stjórnmálanna og er hugarfóstur hugsjóna fólks, sem kemur með hana inn á þennan vettvang, getur færst inn í miðjuna og er núna orðin hluti af meginstraumi stjórnmálaumræðunnar og það á frekar stuttum tíma.

Ég fletti t.d. upp grein sem Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, skrifaði ásamt Magnúsi Má Guðmundssyni, sem var borgarfulltrúi Samfylkingarinnar á þeim tíma, og Helgu Jónsdóttur, sem var framkvæmdastjóri BSRB. Þetta er grein frá því í mars 2015, fyrir fjórum árum, þegar verið var að setja af stað tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar sem hér hefur verið minnst á. Þeim punkti hafði vinna þessara borgarfulltrúa sérstaklega og þeirra sem sátu með þeim í borgarstjórn skilað á því á að giska ári sem liðið var frá því að fyrsta hugmyndin var sett fram á vettvangi borgarstjórnar. Við erum því að tala um fimm ára tímabil þar sem stytting vinnuvikunnar, sem leið til að koma á fjölskylduvænna samfélagi og tryggja aukinn jöfnuð og lífsgæði, fer frá því að vera jaðarhugmynd og í það að vera hugmynd sem er að fá hér nokkuð velviljaða afgreiðslu Alþingis. Þótt þetta heiti frávísunartillaga erum við að beina því til ríkisstjórnar að taka þetta samtal upp við verkalýðshreyfinguna sem er komin í þetta af fullum krafti.

Ég er hér aðallega til að þakka þeim sem á undan okkur fóru og fagna því að við getum haldið þessu góða starfi áfram.