149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

vestnorrænt samstarf á sviði íþrótta barna og unglinga.

462. mál
[16:33]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta er góð tillaga hjá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Það eru þó nokkur atriði í ekki mjög langri greinargerð sem ég staldra við og vil leggja inn við áframhaldandi vinnslu málsins í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Það þarf náttúrlega ekki að fjölyrða um gildi norræns samstarfs og gildi þess að tengja saman þjóðir í gegnum íþróttir og tómstundir, að skapa persónuleg tengsl á milli einstaklinga og síðast en ekki síst að deila reynslu, eins og hér kemur fram, að þjóðirnar deili reynslu hvað varðar uppbyggingu innviða, þjálfunar og aðstöðu til íþróttaiðkunar og tómstunda. Svona eiga menn að vinna hlutina, eins og maður segir. Þetta er mjög gott.

En fyrsta atriðið sem ég staldra örlítið við er að í greinargerðinni eru einungis taldar upp þrjár íþróttagreinar. Ég átta mig á að það er aðeins verið að taka dæmi vegna þess að við erum reglulega með mörg stórmót í þeim greinum hér á landi og hinar þjóðirnar einnig. Að mínu mati má þó útvíkka það aðeins og ekki telja einungis upp þær greinar. Það eru náttúrlega fjölmargar aðrar greinar sem haldin eru stærri og minni mót í og væri hægt að opna sem vestnorræn mót eða bjóða sérstaklega vestnorrænum þátttakendum að vera með. Ég vildi benda á þetta í fyrsta lagi.

Svo velti ég fyrir mér orðalaginu bæði í upphafi og í lokin. Ég er tiltölulega beinskeytt að eðlisfari en eins og hefðin kveður á um kemur fram í lokaorðum að Alþingi beini þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að kanna til hlítar hvernig styrkja megi samstarf. Í upphafi segir: Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að efla samstarf.

Ég velti sérstaklega fyrir mér niðurlaginu, hvort rétt væri að orða þetta aðeins sterkara, ekki endilega „að kanna til hlítar“ heldur bara „að styrkja samstarf“, eins og segir í upphafi. Það mætti kannski bæta við að settur yrði af stað starfshópur til að undirbúa frekara samstarf á því sviði.

Þetta er eitt af fjölmörgum góðum verkefnum sem hafa komið frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Það er yfirleitt á þann hátt sem ég nefndi áðan, að ákveðnum tilmælum er beint til ríkisstjórnarinnar. Svo er náttúrlega undir ríkisstjórninni komið hvenær og hvernig hlutirnir eru framkvæmdir. Ég vil minna þingmenn á að það er svolítið í okkar höndum að fylgja eftir slíkum verkefnum og gæta þess, ef áhugi fyrir hendi, að þau komist til framkvæmda. Það er verkefni okkar.

Mig langar að segja að lokum að ég átti þess kost að fara í heimsókn á vegum þingsins til bæði Færeyja og Grænlands á síðasta ári. Það var í fyrsta skipti sem ég heimsótti þær þjóðir og stórkostlegt að koma til beggja landanna og átta sig á og finna hversu góð tengsl við höfum og hversu mikið þessir nágrannar okkar og góðu vinir horfa til okkar. Við erum svolítið stóri bróðirinn í því samstarfi og það er ábyrgðarhlutur hjá okkur að leiða það samstarf og deila reynslu okkar og þekkingu með þeim góðu vinum. Þeir horfa til okkar og við erum komin lengra á sumum sviðum, t.d. með uppbyggingu og þróun á íþrótta- og tómstundastarfi fyrir börn og unglinga. Við eigum að sjálfsögðu að deila þeirri reynslu og efla samstarfið. Ég mun því styðja þessa tillögu þegar hún kemur til atkvæða.