150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

orð ráðherra um forsendur lífskjarasamninganna.

[10:36]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég átta mig alveg á ástandinu. Þetta snýst um forgangsröðun, þetta snýst um hugmyndafræði og þetta snýst um hvernig á að forgangsraða verkefnum sem á að setja fjármagn í. Það á augljóslega ekki að forgangsraða í að greiða hér mannsæmandi laun þeim stéttum sem við höfum séð undanfarið að samfélagið myndi bókstaflega hrynja án. Þetta snýst um forgangsröðun. Ég er að benda á að svigrúmið hefur verið gríðarlegt þegar kemur að varnarbaráttunni, en við erum líka að reyna að verja grunnstoðir samfélagsins. Það eru þessir hópar sem sinna þeim störfum. Við viljum verja grunnstoðir samfélagsins og í því felst að greiða almennileg laun.

Hvernig stendur á því að svigrúmið er endalaust þegar kemur að björgunaraðgerðum fyrir fyrirtæki, í þeirri varnarbaráttu, en þegar kemur að varnarbaráttu fyrir grunnstoðir samfélagsins, fyrir fólk sem vinnur störf í ómissandi grunnþjónustu í samfélaginu, er svigrúmið ekki neitt? Það elur á óánægju, (Forseti hringir.) streitu og veikindum að meta fólk ekki að verðleikum. Þetta grefur undan grunnstoðum samfélagsins og ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hvað kostar það inn í framtíðina?