150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

forsendur fyrir ríkisstuðningi við fyrirtæki.

[10:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þarf greinilega að endurtaka það sem ég sagði. Ef hv. þingmaður les samning fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans sér hv. þingmaður skýrt skrifað út að þeir einir sem hafa fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi eiga rétt á úrræðinu. Sama grein er skrifuð inn í frumvarp um stuðningslán sem er til meðferðar í þinginu. Það sem ég hygg að hv. þingmaður sé að vísa til hér, og er afskaplega óskýr í sinni framsögu um, er að slík fyrirtæki sem eiga þá rétt á, ef þau eru með fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi, geta tengst öðrum aðilum sem hugsanlega eru með skattskyldu sína annars staðar. Um þau mál fjalla m.a. sérstakar reglur um skattskil á Íslandi sem hafa verið settar hér á Alþingi og takmarka möguleika innlendra aðila til að njóta góðs af lægri skattprósentum á slíkum svæðum. Mér finnst sjálfsagt að þetta sé skoðað nákvæmlega í nefndarvinnunni hér og það er bara rangt sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) er að reyna að fleyta hérna út í kosmósið, að við höfum ekki hugað að þessu.