150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

kostnaður við nýjan Landspítala.

[10:56]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið. Það er nú þannig að kostnaðarmatið hvað endurbyggingu gömlu bygginganna varðar var svo vitlaust að ég geri enga kröfu um að reynt verði að svara því, ekki einu sinni í skriflegri fyrirspurn frá mér. Það hlýtur að þurfa að taka endurmatið algerlega frá grunni. En í þessari fyrirspurn minni er ég bara að tala um nýbyggingarnar. Það eru aðrir þættir sem koma til skoðunar síðar, en fremst í röðinni vildi ég gjarnan fá upplýsingar um það. Það er auðvitað athyglisvert líka, af því að hæstv. ráðherra talaði um framtíðarmálin, að það var horft til þess að skilgreindur yrði nýr staður fyrir næsta spítala þegar var verið að keyra í gegn þessa ákvörðun um að klára uppbygginguna við Hringbraut. Þá voru helst nefndir Vífilsstaðir og Keldnaland. Vífilsstaðir voru síðan seldir til Garðabæjar og Keldnalandið fært núna, ef frumvarp sem mælt hefur verið fyrir klárast, inn í nýtt félag sem tengist fjármögnun borgarlínu. En uppleggið er nýjar byggingar. (Forseti hringir.) Það væri áhugavert, ef hæstv. fjármálaráðherra hefur tíma, að hann upplýsti hvernig hann sæi fyrir sér að skilgreina síðari tíma (Forseti hringir.) byggingarsvæði fyrir næsta Landspítala.