150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

breyting á útlendingalögum.

[11:01]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ítreka að það sem hv. þingmaður kom inn á, að frumvarpið væri óbreytt, er ekki rétt. Vegna athugasemda frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna var t.d. fallið frá því að kæra fresti réttaráhrifum sem og var tekið út að það þyrfti verulegar ástæður vegna endurupptöku.

Síðan er forgangsröðunin. Það skiptir einmitt máli hvar fólk hefur verið. Við beitum t.d. ekki Dyflinnarreglugerðinni er varðar Grikkland og Ungverjaland vegna þeirra stöðu sem þau lönd eru í í dag. Við sendum fólk ekki til baka í flóttamannabúðir í Grikklandi. Varðandi frumvarpið sjálft erum við auðvitað að líta til málsferðartímans, eins og hv. þingmaður kom inn á, vegna þess að það er óásættanlegt að svo margir sem koma hingað þurfi að bíða í fjölda mánaða, eins og við höfum séð svo oft, eftir endanlegri niðurstöðu. Við verðum að forgangsraða fyrir það fólk sem er í raunverulegri þörf fyrir vernd. Verndarkerfið okkar er einmitt ekki hugsað fyrir fólk sem er með vernd í öðru ríki nú þegar. Þrátt fyrir breytingarnar í frumvarpinu fá þeir sem eru með vernd annars staðar einstaklingsbundna skoðun, þ.e. fá viðtal og geta lagt fram þau gögn sem þeir óska eftir og fært fram rök fyrir sinni vernd hér þrátt fyrir vernd annars staðar. Endursendingar mega aldrei brjóta í bága við 42. gr. útlendingalaga sem byggist á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Við ættum auðvitað að ræða það að fólk sem er með vernd annars staðar og er með réttindi eins og ríkisborgarar annarra Evrópuríkja ætti að geta komið hingað og fengið frekar atvinnuleyfi. Við ættum að hugsa það út frá því að þau eiga ekki endilega heima í verndarkerfinu okkar þar sem við verðum að forgangsraða betur. Þrátt fyrir að 531 einstaklingur hafi fengið vernd í gegnum það kerfi okkar á síðasta ári verður okkur að ganga betur í stjórnsýslu útlendingakerfisins. Það er óásættanlegur biðtími í dag. Við verðum að geta afgreitt mál betur og hraðar á þeirri forsendu að fólk geti fyrr hafið árangursríka aðlögun. (Forseti hringir.)

Varðandi samstöðu í ríkisstjórninni eru, eins og komið hefur fram, einstaka fyrirvarar hjá Vinstri grænum við nokkur atriði í frumvarpinu. Þess má geta (Forseti hringir.) að í frumvarpinu felast fjölmargar aðrar breytingar en þessi eina breyting sem hv. þingmaður vísar til.