150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir góða spurningu. Við kölluðum eftir upplýsingum varðandi NPA-samninga, bæði frá sveitarfélögunum og ráðuneytinu, og áttum jafnframt ágætissamtal við Öryrkjabandalagið. Búið er gera 87 samninga milli sveitarfélaganna og ríkisins á þessu ári. Í ljós kom að bæði vegna kjarabóta og annarra þátta vantaði upp á að fullfjármagna samningana. Við vildum stíga inn í það og fulltryggja þá fjármögnun, það eru þessar 157 milljónir.

Varðandi fjölgun samninga var áhugi í nefndinni á því en þá ber að minna á að það þarf að vera samtal á milli sveitarfélaga og ríkisins vegna þess að ríkið borgar 25% og sveitarfélögin 75% og við viljum fá nánari upplýsingar um hvað það eru margir samningar og hvar þeir eru úti um landið áður en við förum að stíga inn í með 25% framlag og láta sveitarfélögin kannski kljást um það. Það væri gagnvart jafnræðinu líka eitthvað ankannalegt. En þeim samningum á að fjölga verulega á næsta ári.