150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir mjög góða spurningu. Þetta var auðvitað rætt hér, ekki bara í hv. fjárlaganefnd heldur í allsherjar- og menntamálanefnd, vegna þess að þetta kom spánskt fyrir sjónir þegar það kom inn í þingið. Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpinu en svo var engin fjárheimild á móti. Það er rétt að í gildandi fjárlögum voru 400 milljónir ætlaðar almennum stuðningi við fjölmiðla. Nú er það svo að afleiðingar Covid koma þannig fram hjá fjölmiðlum að meiri eftirspurn er eftir fréttaflutningi þeirra og jafnvel afþreyingarefni o.s.frv., þannig að hlutabótaleiðin er kannski ekki úrræðið sem myndi nýtast þeim. Ég sagði í ræðu áðan að það fá ekki allir allt. Við erum með frumvarpið enn þá í allsherjar- og menntamálanefnd. Það er ekki farið frá okkur. Ef það verður afgreitt af þinginu og teiknast upp sem almennur stuðningur við einkarekna fjölmiðla, með þeim atriðum sem nefndin kemur sér saman um, þarf að afla sérstakrar heimildar af því að við í fjárlaganefnd erum að leggja til að allt að 400 millj. kr. fari í þennan Covid-stuðning.