150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég held að það sé alveg eðlilegt svar hjá þeim sem hér stendur að með sjö manna fjölskyldu myndi það hrökkva skammt og ég hef fullan skilning á því að þetta er lágt og erfitt að láta það ganga upp. Ég vil þó segja að þegar teknar eru ákvarðanir um að hækka atvinnuleysisbætur — við hækkuðum þær um 30.000 kr. árið 2018 og það var vel, og auðvitað er mikill þrýstingur á að þær hækki og eðli máls samkvæmt er mikið atvinnuleysi, þetta er lág fjárhæð og vonandi tekst það — þá þarf það auðvitað að gerast í einhverju samhengi við kjör almennt og við aðila vinnumarkaðarins. Það er mjög hæpið að þingnefnd stígi þar inn og segi: Við skulum bara hækka atvinnuleysisbætur sisvona. Ég vara hreinlega við því, talandi um ríkisfjármálin almennt, og ég fór aðeins í það. Ég held að það væri eitthvað sem við ættum ekki að stíga inn í. En ég geri ráð fyrir að þessi umræða haldi áfram.