150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[19:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Ég vildi koma aðeins inn á það sem er undir liðnum nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar. Þar er þess getið að stofna eigi nýjan sjóð, Matvælasjóð, og setja 500 millj. kr. í þann sjóð, sem er að sjálfsögðu ágætt. Það er hins vegar verið að leggja niður annan sjóð sem hefur verið nýsköpunar- og framfarasjóður fyrir landbúnaðinn í meira en hálfa öld. Þetta er ágætur sjóður og hefur skipt sveitir þessa lands og bændur mjög miklu máli. Hann veitir landbúnaðargeiranum margvíslega styrki, sumir hverjir lúta ekki beint að matvælaframleiðslu heldur eru mikilvægir í því að treysta byggð vítt og breitt um landið. Það er mjög mikilvægt að þau verkefni verði ekki út undan þegar þessi nýi sjóður verður stofnaður. Sjóðurinn hefur stutt við verkefni sem tengjast ekki beint matvælaframleiðslu heldur einnig menntun og endurmenntun og hefur ekki síst komið að atvinnuskapandi verkefnum með bændum til viðbótar við hefðbundna framleiðslu og styrkir sjóðsins hafa átt þátt í verðmætasköpun í mörgum nýjum störfum til sveita. Það er víðsýni sem hefur einkennt störf þessa sjóðs.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála þessu og hvort hann telji að það hefði ekki verið skynsamlegast, í ljósi allrar þeirrar reynslu sem þessi sjóður hefur, og nú er mikilvægt að koma þessum peningum sem fyrst í vinnu ef þannig má orða það, að setja þessa peninga í þá sjóði sem eru fyrir, þ.e. sjávarútvegssjóðinn og síðan landbúnaðargeirann, þ.e. Framleiðnisjóð. Hefðu peningarnir ekki nýst betur þannig strax frekar en að byrja upp á nýtt og stofna nýjan sjóð og allt sem því fylgir?