150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[20:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Viðkvæmt ljós, mér finnst þetta ekkert viðkvæmt í raun og veru. Ég er að bera það saman einmitt að verið er að reyna að nota sömu aðferð til að uppreikna laun hópa sem hafa ekki verkfallsrétt eða geta ekki deilt um kjör sín, við alla vega hérna getum skipað okkar eigin laun samkvæmt lögum o.s.frv. Þegar kjararáð, eins og það var áður, tók ákvörðun um laun þingmanna árið 2016 og spurt var um rökin á bak við þá launahækkun fengust þau t.d. ekki nema á mjög óljósum forsendum.

Ég er að reyna að segja að þessir tveir hópar, og fleiri hópar, ég ber saman þessa tvo hópa sérstaklega af því að það er nýbúið að hækka laun þingmanna og ráðherra, að í lögum um almannatryggingar er mjög augljóst að reynt er að fylgja sömu reiknireglu, sem sagt að taka mið af launaþróun þannig að þau hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs eða launaþróun, eftir því hvort sem er hærra, meðan hjá þingmanninum hækki þau um launaþróun opinberra starfsmanna. Þar er munurinn. Hjá þingmönnum er það í tengslum við opinbera starfsmenn, en í lífeyrinum þá er það bara launaþróunin almennt. Allt í lagi með það, ekkert undan því að kvarta. Munurinn er sá að það er ekki notuð raunveruleg launaþróun eða raunveruleg verðhækkun neysluverðs hjá lífeyrisþegum en notuð er raunveruleg hækkun hjá þingmönnum. Já, þeir sem eru með háan lífeyri fá það fyrir fram fyrir árið, það er eitt, meðan þingmenn fá það eftir á. Það er líka munur þar. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki eðlilegt að þetta sé alla vega sambærilegt eða að ef skekkja er í lok árs sé það gert upp. Við erum endurtekið að vanmeta hækkunina eins og hún ætti að vera samkvæmt almannatryggingalögunum upp á rúmlega 50%.