150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[20:44]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Við ræðum hér þennan fjárauka sem er hluti af Covid-19 aðgerðapakka stjórnvalda til að mæta efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldursins. Við vitum hver staðan er þar. Það gengur yfir farsótt og efnahagshamfarir í kjölfarið. Sem betur fer stendur ríkissjóður vel og sem betur fer eru stjórnvöld á sama stað og stjórnvöld víðast hvar öll af vilja gerð að grípa inn í og aðstoða. Frekar of mikla aðstoð en of litla, segir fjármálaráðherra í upphafi, og ríkisstjórnin kinkar kolli. Stjórnarandstöðunni er haldið í myrkrinu en hún styður björgunaraðgerðir, gerir það á þann hátt sem hún getur með því að styðja Covid-stuðningsmál ríkisstjórnarinnar einróma þegar þau koma fram þó svo að meiri hlutinn felli allar breytingartillögur stjórnarandstöðunnar. Svo er það kannski bara allt í lagi vegna þess að þær detta flestar inn í næsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar og þá er tilganginum náð.

Staðreyndin er sú að rekstrargrundvöllur fjölmargra fyrirtækja, heillar atvinnugreinar og meira til, er horfinn í einu vetfangi og það detta inn björgunarpakkar. Alþingi afgreiðir risamál um risaútgjöld á mettíma, allt til að grípa fyrirtæki, til að grípa heimili og til að grípa fólk. Það er hlutabótaleið, það eru atvinnuleysisbætur úr ríkissjóði, það eru laun í sóttkví, það er frestun greiðslu opinberra gjalda, brúarlán til fyrirtækja, lokunarstyrkir, stuðningslán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, jöfnun tekjuskatts og þannig mætti áfram telja.

Við erum í þoku, það er bara þannig, með framhaldið, í þoku með það hvaða leiðir eru best færar og líka í þoku með það hvaða áhrif þær aðgerðir sem við erum að grípa til hafi. Það býr vissulega margt í þokunni og margt af því sem hefur verið gert til þessa er alveg hreint ágætt. En þokan hefur neikvæðar hliðar. Á Íslandi geymir sagan margar sorgarsögur af því að fólk hefur orðið illa úti. Þokan hefur villt því sýn og afvegaleitt og fólk jafnvel gefist upp við bæjardyrnar af því að það sá ekki í þokunni. Mér kemur þetta í hug vegna þess að ég hef undanfarna daga átt samtöl við forsvarsfólk og starfsfólk lítilla og stórra fyrirtækja sem hefur frá því seinni hluta mars, frá því að fyrstu aðgerðirnar fóru að koma fram, nýtt sér, samkvæmt bestu þekkingu og getu, þau færi sem við höfum lagt fram til þess eins eiginlega að uppgötva það einhverjum dögum, jafnvel vikum, jafnvel mánuði, seinna að það hefði átt að fara aðra leið, að annað hefði hentað því betur eða að það sótti um á vitlausum af stað eða gerði þetta einhvern veginn öðruvísi en það hefði átt að gera.

Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í hárgreiðslumann sem sagði: Ég er vissulega ekki menntaður í þessum fræðum en ég er með landsliðið af lögfræðingum og endurskoðendum hér í stólnum hjá mér. Þeir gáfu mér næstum því jafn mörg ráð, um það hvaða leið ég ætti að fara, og þeir voru margir. Þetta er fólkið sem kann þetta. Niðurstaðan er sú að þetta er ansi flókið. Við erum með alls konar fyrirtæki í vanda, rótgróin fyrirtæki, með tiltölulega einfaldan rekstur, allt yfir í ný fyrirtæki, sem eru að fóta sig, yfir í risafyrirtæki, mjög flókin, og þau eru öll í vanda; eru með alls konar skuldbindingar sem þau geta allt í einu ekki staðið við og það eru alls konar leiðir í boði. Það er ansi flókin mynd sem blasir við þeim, jafnvel með öllum þessum pökkum. Lítil fyrirtæki, stór fyrirtæki, alls konar fyrirtæki þurfa skýra leiðsögn um þennan frumskóg. Það þurfa einstaklingar líka og það er það sem er að koma sífellt betur í ljós.

Það er í þessum veruleika sem gagnsemi samráðs og samvinnu er svo ótvíræð. Ég hef reynslu af því, eins og margir aðrir, að vinna að tilteknu stóru verkefni innan lítilla fyrirtækja, innan stórra fyrirtækja, innan fyrirtækja sem eru í miklu sambandi við önnur fyrirtæki í viðkvæmri stöðu á markaði, og auðvitað er það þannig að svona stór og mikilvæg verkefni eru gjarnan sett af stað í þröngum hópi. Menn halda þessu þétt að sér til að passa að missa þetta ekki úr höndunum. En á lokasprettinum, þegar kemur að því að prufukeyra þetta, er fólki sem til þekkir hleypt að borðinu. Það kemur með sínar hugmyndir, sína reynslu, bendir á eitthvað nýtt. Reynsla mín er sú að það sé alltaf betra að fá fleiri með þegar kemur að lokasprettinum, alltaf. Það eru heilmikil sannindi í því að betur sjái augu en auga og það á svo sannarlega við í þeim aðstæðum sem við búum við hér og engin ástæða er til að halda að við stjórnmálamenn búum við einhvern annan veruleika í því en aðrir gera.

Þess utan er mikilvægt að við forðumst ákveðna rörsýn þegar við vinnum að málum. Fólk kemur með mismunandi sýn að vandamálinu. Það eina sem við eigum sameiginlegt er að vera sammála um hvert vandamálið er og vera ansi mikið sammála um það hvert við viljum fara. Ef samráð af þessum toga hægir á málum verður bara að hafa það. Það mun aldrei hægja meira á en þau mistök sem við getum gert akkúrat núna af því að við köllum fólk ekki að borðinu, af því að stjórnarflokkarnir nýta sér ekki kraft stjórnarandstöðunnar, nýta sér ekki þau eyru, þá reynslu sem þar býr o.s.frv.

Hefði t.d. ekki verið jákvætt fyrir einhverjum vikum að skoða fyrstu umferð hlutabótaleiðarinnar með gagnrýnum augum og fá fleiri að borðinu til að velta upp steinum? Vissulega tók það mál jákvæðum breytingum í meðförum velferðarnefndar en greinilega ekki nægilega miklum.

Svo er kannski eitt af þessu öllu sem er áhugavert að taka inn í myndina og það er að líta til þess sem er. Nú er ég bara með nefndarálitið með fjáraukanum þar sem af hálfu meiri hlutans er farið ítarlega yfir málin. Það stingur í augu sums staðar að verið er að leggja til, af góðum hug, ákveðin útgjöld en ef marka má það sem gerst hefur hingað til er þetta ekki endilega í hendi, jafnvel þótt samþykkt verði hér fljótlega, vegna þess að útfærslan er eftir.

Mig langar að vísa í bls. 3 í nefndarálitinu þar sem verið er að tala um átak í geðheilbrigðismálum með fjárheimild 540 milljónir. Það er sem sagt verið að leggja sérstaka áherslu á geðrækt. Nú vill svo til að fyrir Alþingi liggur frumvarp — það er reyndar mál Viðreisnar en það er metfjöldi, liggur mér við að segja, meðflutningsmanna úr öllum flokkum á því þingmannamáli og nálgunin því sannarlega þverpólitísk — sem felur í sér að sálfræðiþjónusta sé flutt inn í greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga. Það mál hefur fengið mjög ítarlega og góða umfjöllun í velferðarnefnd, er tilbúið en hefur ekki verið tekið út. Hér er hins vegar verið að tala um verkefni sem á eftir að útfæra. Væri ekki nær að nýta sér það sem til er og hleypa frumvarpinu í gegn þannig að hægt væri að grípa til aðgerða strax?

Annað sem er áhugavert að sjá er að fjölmiðlastuðningurinn sem á að koma hérna fram, einsskiptisstuðningurinn, er eiginlega ekki meiri en svo að hann er lægri en sú fjárhæð sem búið er að tala um af hálfu ríkisstjórnarinnar, það sem af er kjörtímabilinu. Það að kalla þetta einhvern Covid-stuðning er því í besta falli vandræðalegt og það er algerlega ótækt að halda einkareknum fjölmiðlum í þessari stöðu á tímum sem þeir eiga sannarlega að vera til þess bærir að veita Alþingi og ríkisstjórn, fyrirtækjum sem hyggjast nýta sér þær leiðir sem eru í boði alvöruaðhald. En fyrst og fremst dregur þetta úr getu fjölmiðlanna til að veita stjórnvöldum aðhald á meðan haldið er á þessu máli, þessum lofaða stuðningi, ekki mánuð eftir mánuð heldur ár eftir ár. Nú er svo komið að þessi heimild á að fara inn, það á að taka hana af hinni. Þetta er millifærsla og þarna hverfur áttundi parturinn einhvers staðar í leiðinni. Þarna hefði mátt gera betur. Við getum haldið áfram. Án nokkurs vafa eru fleiri mál af alls konar toga tilbúin sem hefði verið hægt að grípa til og nýta. Það hefði verið hægt að nota þetta viðbótarfjármagn sem verið er að setja í þau mál sem þegar hafa verið unnin, hafa farið í umsögn og eru tilbúin til að fara út og gera gagn.

Frú forseti. Hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson fór í fyrri ræðu vel yfir breytingartillögur Viðreisnar við þetta mál, og það er svo sem rétt að fara yfir það aftur að við munum styðja þessar tillögur. Ég fór yfir það hér áðan. Við styðjum góð verk. Það er verið að gera vel, það er bara aðferðafræðin sem ég hef verið að gagnrýna. Við munum ganga út frá því að tillögur okkar verði felldar, því erum við orðin vön. Við munum styðja tillögur meiri hlutans en halda áfram að veita það aðhald sem við getum.

Meðal þeirra tillagna sem Viðreisn leggur fram er aukið fjármagn í nýsköpun. Það er vissulega verið að auka þar í. Við höfum þá bjargföstu trú að skilaboð um langtímaátak í þeim málum muni skila okkur miklum ávinningi. Þess vegna lögðum við sérstaklega fram hér fyrr í dag tillögu um að það yrði fellt niður að hafa þetta tímabundna nálgun til næstu tveggja ára. Það liggur fyrir að þegar fyrirtæki eru að leggja í rannsóknarvinnu, nýsköpun og þróunarvinnu þarf það að hafa vissu fyrir því að ekki sé verið að tjalda til einnar nætur, ef svo má segja. Við hefðum virkilega viljað sjá a.m.k. það hljóta brautargengi. En það þýðir svo sem ekki að þetta verði ekki framlengt einhvern tímann þegar líður á og við munum vissulega tala fyrir því áfram og styðja það. Við erum líka með tillögur um aukningu til námsmanna, vinnu í sumar, viljum bæta þar í. Við viljum líka útvíkka það til einkageirans. Það eru alls konar ástæður fyrir því. Það liggur fyrir að sumarstörf námsfólks hjá hinu opinbera eru greidd 100% af hinu opinbera, þ.e. bæði sá helmingur sem verið er að bjóða í af Vinnumálastofnun og svo eru þetta störf hjá opinberum fyrirtækjum. Ef einkamarkaðurinn er með í þessu þá greiða þau fyrirtæki helminginn að sjálfsögðu . Þetta örvar einkageirann og síðan er vert að hafa í huga að það er fullt af ungu fólki að mennta sig í greinum sem ekki bjóða upp á störf í hinum opinbera geira atvinnulífsins heldur í einkageiranum. Það skiptir líka máli. Við erum að tala um námsmenn í margra ára námi sem hafa jafnvel unnið árum saman í einhverju fyrirtæki, komnir með góða þekkingu, og eru mikilvæg viðbót við það fyrirtæki. Við hefðum viljað sjá þetta úrræði ná til þess. Mér finnst mjög mikilvægt að við höfum í huga að atvinnutryggingakerfið okkar er ekki beinlínis vinsamlegt námsfólki og það eru alls konar rök fyrir því að svo sé. En á sama tíma erum við með þannig námslánakerfi að fólk er beinlínis hvatt til þess að vinna með. Við erum því ekki alveg að sýna námsfólkinu okkar sanngirni í því hvernig við byggjum kerfið upp og þar með hvernig við erum að bregðast við þessu núna. Við leggjum því til 1 milljarð til viðbótar í sumarstörf námsmanna og þessa útvíkkun úrræðisins.

Ég ætla ekkert að hafa þetta mikið lengra. Það er liðið á kvöldið og við eigum mjög langa atkvæðagreiðslu eftir. Nú er búið að fara hér mörgum orðum um efnislegt innihald þessa pakka líkt og annarra. Mig langaði að ræða aðferðafræðina og ég vona að hún hafi komist til skila að einhverju leyti. Mér finnst þetta skipta máli. Fyrir utan kláran ávinning af því held ég að við myndum vinna betur svoleiðis fyrir fólkið okkar. Dæmin sýna að við erum að senda frá okkur mjög ólík skilaboð. Gallinn við þá stöðu er að við erum að verja peningum í eitthvað sem skilar ekki alveg sínu. Mér finnst einfaldlega betri bragur á því fyrir okkur að skoða aðferðirnar.