150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[20:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum fjáraukalög, önnur á frekar skömmum tíma, en fjáraukalög snúast um að bæta við það fjármagn sem þegar hefur verið ákveðið í gegnum fjárlög og verður nýtt á yfirstandandi ári. Við erum að tala um aðgerðir sem bætast við fjárlög ársins 2020 og á að sama skapi að nýta á árinu 2020. Þar skiptir máli inn í samhengið við þær tillögur sem hér eru lagðar fram að þetta snýst um árið í ár. Þetta snýst um það sem við ætlum að gera núna.

Mig langar að fara aðeins yfir það sem var auðvitað rakið þegar málið var lagt upphaflega fram, þ.e. um hvað málið snýst. Það er annars vegar um heimild til að veita stuðningslán og svo eru það félagslegar aðgerðir, þ.e. aðgerðir sem snúa að því að efla hið félagslega öryggisnet okkar á þessum tímum. Þær tel ég skipta alveg gríðarlega miklu máli og ég tel skipta máli að þær komi núna. Við erum að grípa til mikilvægra félagslegra aðgerða núna og það er eitt af því sem ég held að við höfum lært af fyrra efnahagshruni, að mikilvægt er að gera ákveðna hluti strax.

Mig langar að halda því til haga að hér er verið að setja 5 milljarða í aðgerðir sem snúa að námsmönnum og fólki í atvinnuleit. Þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli. Og innan þess er líka verið að gera sérstakt átak til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn sem hafa takmarkaðan rétt til atvinnuleysisbóta og verið er að efla náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur í sumar og næsta vetur. Einnig er verið að leggja til peninga til að hægt verði að efla menntun ungs fólks í sumar sem og að bjóða upp á sumarnám fyrir framhaldsskólastigið. Ég held að þetta skipti gríðarlega miklu máli. En svo er líka verið að leggja til fjármuni til að draga úr félagslegri einangrun aldraðra og öryrkja. Það er hópur sem hefur að mörgu leyti dregið sig til baka í Covid-fárinu. Þess vegna er mjög brýnt að styrkja þá starfsemi sem er nú þegar í gangi og þær félagsmiðstöðvar og ýmis afþreyingarúrræði sem þeir hópar notfæra sér. Þá er einnig verið að leggja til peninga til félagsþjónustu og barnaverndar í dreifðum byggðum en einnig er verið að efla og auka í barnavernd. Því miður hefur það sýnt sig því að þetta er gríðarlega nauðsynlegt að gera, því að ástandið hefur gert að verkum að aðstæður margra barna hafa orðið verri og þess vegna er svo mikilvægt að bregðast við því nú þegar. Þá er ótalið að hér er verið að veita 600 millj. kr. til þess að styðja við íþróttir og tómstundir barna sem koma frá tekjulágum heimilum. Þetta er einnig atriði sem ég tel að skipti mjög miklu máli.

Einnig er verið að efla það sem snýr að þjónustu heilsugæslunnar þegar kemur að geðheilbrigðismálum. Það er gríðarlega mikilvægt og ég held að einmitt þessi leið, að gera það í gegnum heilsugæsluna, skipti máli. Við viljum að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður og að mínu mati á hún að vera það sama hvers konar sjúkdómar eða krankleiki plagar fólk.

Það hefur kannski eðli máls samkvæmt talsvert verið rætt um breytingartillögur sem eru gerðar við þetta fjáraukalagafrumvarp og þær viðbætur sem er verið að gera. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að þær breytingartillögur sem lagðar eru til í nefndaráliti og breytingartillögum meiri hlutans, sem raunar mjög margir þingmenn minni hlutans taka einnig undir, mér hefur heyrst að allir ætli að styðja þær, eru unnar í samtali í hv. fjárlaganefnd. Það er því ekki hægt að segja að þetta séu einungis tillögur frá okkur sem tilheyrum meiri hlutanum. Auðvitað höfum við mikið um þær að segja, enda er þetta nefndarálit meiri hlutans, en það er engin tillaga hér sem ég hef heyrt einhvern í minni hlutanum tala gegn. Í samtalinu í nefndinni hafa allir svo sannarlega lagt til málanna og haft áhrif á það hvernig tillögurnar mótast. Hins vegar eru lagðar fram fleiri breytingartillögur og í sjálfu sér er ekkert um það að segja, það er bara frelsi allra hv. þingmanna að leggja fram breytingartillögur.

En mér finnst skipta máli, og við verðum að hafa það í huga, að allar þær aðgerðir sem ráðist er í núna kosta peninga. Mér finnst allt í lagi að tala um það. Það er gott að við setjum peninga til að mynda í að efla félagslega kerfið okkar. En við þurfum líka að hafa í huga að einhvern tímann kemur að því að það þarf að ná aftur jafnvægi í rekstri ríkissjóðs. Þess vegna skiptir máli að það sem við gerum sé eins markvisst og við mögulega getum. Það snýst auðvitað um að við getum átt gott og blómlegt samfélag til framtíðar. Og einmitt vegna þessa verð ég að taka undir með þeim sem hafa lýst því hvernig þeim er misboðið yfir þeim fréttum sem við höfum fengið af því að fyrirtæki sem hafa verið að nýta sér þau úrræði sem búið er að koma á laggirnar til þess einmitt að halda utan um fólkið í landinu við þessar aðstæður — þá er ég að vísa í hlutabótaleiðina — að fyrirtæki skuli hafa leyft sér að setja starfsmenn sína á hlutabætur, sem eru, eins og ég segi, aðgerðir sem gripið er til til að standa vörð um ráðningarsamband fólks og afkomu þess og er einmitt fjármagnað í gegnum okkar sameiginlegu sjóði. Þetta er fjármagnað með skattpeningunum okkar, og að þau fyrirtæki skuli hafa leyft sér að greiða eigendum sínum arð í sömu andránni er ekki nógu gott. Það er okkur, sem vinnum hérna í þessu, brýning til að vanda okkur við það hvað við erum að gera.

En ég ætla líka rétt að vona að þetta verði skilaboð út í samfélagið að við tökum höndum saman um að segja: Svona viljum við ekki gera þetta. Svona viljum við ekki fara með almannafé okkar. Við eigum að grípa inn í og standa vörð um afkomu fólks en við ætlum að gera það líka með framtíðina í huga. — Það minnir mig á að ég gleymdi einu í ræðu minni sem snýr einmitt að framtíðinni, ég hoppaði bara óvart yfir þann kafla. Það er auðvitað allt það sem við erum að gera og styrkir við nýsköpun. Þar erum við í meiri hluta fjárlaganefndar að bæta enn frekari peningum við í grunnrannsóknir. Þetta fjármagn skiptir alveg gríðarlega miklu máli vegna þess að það mun styrkja okkur sem samfélag til framtíðar.

Svo langar mig líka að nefna annað, og við komum inn á það í nefndarálitinu, að það er rosalega mikilvægt að minna á, í öllum þeim aðgerðum sem almennt er gripið til á vinnumarkaði, að fatlað og langveikt fólk er einnig á vinnumarkaði. Það þarf auðvitað að standa vörð um kjör þess á vinnumarkaði í þessu ástandi og til að það sé enn frekar hægt leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að ráðist verði í einskiptisframlag til að gera það kleift að standa sérstaklega vörð um starfsemi verndaðra vinnustaða sem hafa skerst sökum faraldursins.

Ég tel að við séum með mikilvægt fjáraukalagafrumvarp, það taki á mjög mikilvægum þáttum. Það er alveg ljóst að þetta verður ekki síðasta fjáraukalagafrumvarpið sem við fjöllum um á þessu ári og ég held að mikilvægt sé að eftir því sem tíminn líður og við förum að sjá hvernig aðgerðir sem við grípum til eru að virka að við lærum af því og sníðum vinnu okkar í kringum það. Það hefur svo sannarlega sýnt sig að þörf getur verið á því. En ég vona svo sannarlega að við tökum nú höndum saman og stöndum saman sem samfélag og látum það ekki viðgangast að fyrirtæki nýti þetta ástand til þess að ganga í okkar sameiginlegu sjóði til annars en þess sem þarf að gera til að halda fólki í vinnu og til að halda sjó til að geta haldið áfram til framtíðar. Núna á ekki að vera græðgi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)