150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[21:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Miðflokkurinn hefur stutt tillögur ríkisstjórnarinnar og aðgerðir. Við styðjum þennan aðgerðapakka tvö, eða fjárauka tvö, enda mikilvægt að styðja allar þær aðgerðir sem koma til með að lágmarka það tjón sem við stöndum frammi fyrir vegna faraldursins.

Miðflokkurinn telur að nauðsynlegt sé að ganga lengra og mun flytja breytingartillögur, sem við greiðum atkvæði um á eftir, sem snúa að því að fjölga störfum. Það er gríðarlega mikilvægt í þessu árferði þegar við sjáum að u.þ.b. 50.000 manns eru atvinnulaus eða á hlutabótum. Það er algjört forgangsverkefni stjórnvalda að fjölga störfum og draga úr atvinnuleysi eins og kostur er og þar leggjum við til að tryggingagjaldið falli niður fram að áramótum. Tryggingagjaldið er mjög góð leið, þ.e. að lækka það eða fella niður, til að verja störfin og þá hafa fyrirtækin meira ráðstöfunarfé til að halda í starfsfólk sitt og jafnvel þá ráða nýtt starfsfólk. Síðan leggjum við til sérstakra fjárveitingu í að útvíkka þessa sumarstarfaleið þannig að hún gildi inn í haustið og veturinn og snúi að félagasamtökum og einnig einkaframtakinu þannig að ríkissjóður geti fjármagnað það að þessir aðilar ráði til sín fólk. Þetta eru að okkar mati mjög góðar tillögur. Eins og ég sagði áðan höfum við stutt tillögur meiri hlutans. En mig langar að spyrja hv. þingmann: Eigum við von á því að stjórnarmeirihlutinn felli tillögur frá Miðflokknum hér á eftir?