150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[21:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er tiltölulega einfalt mál að skilyrða það sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af varðandi sumarstarfaleiðina. Það er ósköp einfalt, alveg eins og hægt er að setja skilyrði varðandi hlutabótaleiðina, um að ekki verði arðgreiðslur o.s.frv. Það er tiltölulega einfalt mál að gera.

Miðflokkurinn er með fleiri breytingartillögur og þá sameinaðar að mestu með stjórnarandstöðuflokkunum. Þar eru margar góðar tillögur, t.d. varðandi álagsgreiðslurnar, að auka við þær. Komið hefur fram á fundum nefndarinnar að það eru hópar sem verða út undan sem hafa svo sannarlega verið í framlínunni, það er þá sérstaklega starfsfólk á vegum hjúkrunarheimilanna. Það er því mikilvægt að útvíkka þá leið. Við erum með tillögu um það að öryrkjar og eldri borgarar fái sérstaka eingreiðslu. Það er mikilvæg leið til að örva hagkerfið. Þá fá þessir hópar meiri ráðstöfunartekjur og eyða þeim væntanlega að hluta til. Það fer þá út í hagkerfið og kemur hagkerfinu af stað, verslun og þjónustu o.s.frv. Við erum auk þess með lokunarstyrki til fyrirtækja, þ.e. þeirra sem eiga eingöngu rétt á stuðningslánum frá ríkisstjórnarflokkunum, þar leggjum við til að þessi fyrirtæki fái einnig lokunarstyrki eins og þau fyrirtæki sem þurftu að loka vegna tilmæla sóttvarnalæknis. Það er líka mikilvægt úrræði. Við erum með tillögu um að frysta lán hjá öllum ferðaþjónustufyrirtækjum til 18 mánaða. Það er svo sannarlega þörf fyrir það. Annars erum við hreinlega að horfa fram á fjöldagjaldþrot í greininni, þannig að hún verður ekki tilbúin að fara af stað þegar ferðamenn koma hingað aftur. Fleiri tillögur; við erum með hækkun í Tækniþróunarsjóð og rannsóknir og þróun og Kvikmyndasjóð, Framkvæmdasjóð ferðamanna, sóknaráætlun landshluta og til ungra frumkvöðla. Nú spyr ég hv. þingmann: Kemur stjórnarmeirihlutinn, ríkisstjórnarflokkarnir, til með að fella þær tillögur?