151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

breytingar á fiskveiðilöggjöf.

[13:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Forsætisráðherra hleypur náttúrlega í kringum málið, í kringum kjarnann, frá svörunum eins og köttur í kringum heitan graut. Forsætisráðherra hefur viðurkennt það að hún lagði fram frumvarp á sínum tíma sem snerti einmitt tímabindingu. Frábært. Af hverju þá ekki að fylgja því eftir í þessari ríkisstjórn? Hver er ástæða þess að einmitt þegar ég var sjávarútvegsráðherra voru allir flokkar nema einn sem samþykktu að líta til tímabindingar í sjávarútvegi? Það gerðu allir nema einn og það var Sjálfstæðisflokkurinn. En núna eru Vinstri græn búin að kúvenda og hvernig er hægt að ætla annað en að skjól sérhagsmuna sé orðið meira en nokkurn tímann áður þegar flokkar eru allt í einu búnir að kúvenda? Þeir eru búnir að leggja fram frumvörp sjálfir um tímabindingu en það má ekki gera núna. Það er eitt ríkasta hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga, fyrir almannahagsmuni, að við höfum forsætisráðherra — og ég treysti forsætisráðherra sem hefur stýrt auðlindavinnunni, stjórnarskrárvinnunni, vel í gegnum tíðina — (Forseti hringir.) sem sýnir forystu og segir við sína ágætu samstarfsflokka: (Forseti hringir.) Kæru vinir. Nú ætlum við að festa tímabindingu þannig að það sé skýrt að það er þjóðin sem á auðlindina í sjónum. Við erum að skapa hér raunverulega þjóðareign en ekki eitthvert innihaldslaust hjal.