151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

viðbrögð ráðherra við áróðursherferð Samherja.

[13:21]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Nú hafa Stundin og Kjarninn upplýst að starfsmenn Samherja hafi með vitund og vilja framkvæmdastjóra Samherja staðið í njósnum um rithöfunda, stjórnarfólk í samtökum gegn spillingu, plottað um hvernig megi hræða vitni frá því að vitna gegn þeim í sakamáli og farið í herferðir gegn fjölmiðlafólki bæði hér og í Færeyjum. Þar að auki reyndu skæruliðar Samherja að hafa áhrif á formannskjör í stéttarfélagi blaðamanna og prófkjöri Sjálfstæðismanna þar sem leitað er að arftaka hæstv. ráðherra í oddvitasæti. Allt þetta gerist auðvitað í kjölfarið á uppljóstrun Kveiks um verulega vafasama viðskiptahætti Samherja í Namibíu og víðar sem nú eru til rannsóknar í minnst fjórum löndum og til meðferðar fyrir dómstólum í Namibíu.

Forseti. Hæstv. ráðherra hringdi í Þorstein Má Baldursson, aðaleiganda Samherja, til að spyrja hvernig honum liði eftir að Kveiksþátturinn frægi fór í loftið. Símtalið vakti furðu margra og þurfti ráðherrann að útskýra hvað vakti fyrir honum sem hann gerði með eftirfarandi hætti í Kastljósi stuttu síðar, með leyfi forseta: „Ef sjávarútvegsráðherra hefur ekki áhyggjur af því ef þetta stóra fyrirtæki er ekki að koma fram með þeim hætti sem menn telja eðlilegt þá finnst mér bara sjálfsagður hlutur að ýta á eftir því að það standi við þær skuldbindingar sem það hefur gagnvart samfélaginu.“

Ég spyr því með vísan í þessi orð: Hefur hæstv. ráðherra áhyggjur af þeirri áróðurs- og rógsherferð sem fyrirtækið hefur rekið að undanförnu gegn fjölmiðlum, félagasamtökum og jafnvel nánum samstarfsmönnum hans á þingi? Telur hæstv. ráðherra að Samherji standi við þær skuldbindingar sem fyrirtækið hefur gagnvart samfélaginu eða ætlar hann að ýta á eftir því? Ætlar ráðherra að bregðast við og þá hvernig?