151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[13:56]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég held að hægt sé að fagna því að við tölum hér um traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Það er mikilvæg umræða. En ég verð að viðurkenna það að mér þykir felast einfeldningsháttur í orðum hv. þm. Björns Leví Gunnarssonar sem talaði hér áðan á þeim nótum að lausnin á þessu öllu saman væri að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Þetta er mantra sem heyrist gjarnan úr herbúðum Pírata. Ég velti fyrir mér: Hvaða skilaboð er verið að senda til þjóðarinnar með þessu? Sá flokkur sem hefur fengið flest atkvæði í kosningum til þings og í allmörgum sveitarstjórnum um landið og fólkið sem kýs þennan flokk, er það þá bara spillt? (BLG: Ekki leggja mér orð í munn.) Nei, ég er ekki að leggja þér orð í munn, hv. þingmaður. En þessi mantra, að tala með þeim hætti að hér væri allt í fínu lagi ef Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki við völd, (Gripið fram í.) finnst mér vera að tala það inn í þjóðina að hér sé raunveruleg og erfið spilling. Við eigum að ráðast á það en við eigum að nálgast það á réttum forsendum, hv. þingmaður.(Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Ekki samtal.)

Virðulegur forseti. Spilling í stjórnmálum er alvarlegt vandamál mjög víða. Ég fékk tækifæri til þess að sinna kosningaeftirliti í Hvíta-Rússlandi þar sem ég varð vitni að kosningasvindli. Ég varð vitni að því hvernig vilji þjóðarinnar var að engu gerður. Við höfum nýverið heyrt fréttir af því hvernig stjórnarfarið í Hvíta-Rússlandi er þar sem flugvélar eru látnar lenda og blaðamenn eru dregnir út til að fangelsa þá. Það er vissulega alvarlegt. Með þessu er ég ekki að segja að hér á landi sé allt í hinu fínasta og hér á landi þurfum við ekki að hafa áhyggjur af neinu en við erum ekki á sama stað og þessar þjóðir. Og þegar íslenskir þingmenn fara á erlenda grundu og tala með þeim hætti að hér séu mikil spillingarvandamál (Forseti hringir.) er það til þess fallið að ýta enn frekar undir þá ímynd, sem er ekki til staðar (Forseti hringir.) því þrátt fyrir allt saman, virðulegur forseti, búum við hér í góðu samfélagi sem virðir (Forseti hringir.) lýðræðið og hluti af því lýðræði er að kjósendur hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn til að fara með völd.