Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

aðgerðir vegna ópíóíðafaraldurs.

[10:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir hvatninguna og vil nota tækifærið og segja: Já, ef við bara horfum á tölur síðastliðinn áratug og fjölgun þeirra sem koma í viðhaldsmeðferð og fá ópíóíðagreiningu, sem við höfum verið með samning um milli Sjúkratrygginga og Vogs í áratug, þá er stöðug fjölgun. Svo finnum við kirfilega fyrir því að eitthvað er að brotna upp og gerast. Við verðum bara að horfa á þessar óyggjandi tölur og þurfum að gera fjölmargt, betur og meir. Af því að hv. þingmaður kemur inn á mjög mikilvæg skaðaminnkandi úrræði við bráðaaðstæður þar sem líf eða dauði er undir, notkun á Naloxone, þá erum við auðvitað búin að greiða fyrir því á alla þá staði þar sem við þjónustum sjúklinga sem eru að kljást við þessa erfiðu fíkn og þurfum að auka aðgengið að þessum Naloxone-úða sem hv. þingmaður nefndi hér. Við þurfum að gera fjölmargt annað en fyrst og fremst, þegar kemur að ótímabærum dauðsföllum og þeirri umræðu, þá fagna ég því að við séum að taka þetta upp og ræða á vettvangi þingsins, fjölmiðla og þeirra sem vinna við það að þjónusta sjúklinga. Það þarf sveitarfélögin og sameiginlegt átak þings og ríkisstjórnar, þvert á ráðuneyti og með sveitarfélögum, og skoða þarf skaðaminnkandi úrræði. Hvað er verið að gera vel, hvað þarf að gera meira af, hvað þarf að gera umfram og betur og hverju þarf að bæta við? Ég skal halda áfram að koma inn á þetta brýna málefni hér í seinna svari.