Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

afglæpavæðing fíkniefna.

[10:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að ræða þennan tiltekna þátt sem við höfum kallað afglæpavæðingu og snýr að því að við séum raunverulega — og hugmyndafræðin í því er að mínu viti góð, svo ég segi það hreint út — að þjónusta veikt fólk en refsum því ekki. Þetta er hins vegar eilítið snúið. Við höfum rætt þetta hér og ólíku sjónarmiðin í þessu máli, því að það á sér fjölmarga anga eins og hv. þingmaður þekkir og veit og kom m.a. inn á hér, og það hefur ekki náðst sátt um þetta í þinginu. Ég beið því með að koma með frumvarpið inn í þingið eins og upphaflega stóð til, af því að þetta frumvarp lá fyrir, og stofnaði starfshóp með öllum aðilum og notendum. Í þeim hópi, sem hefur fjallað um þetta á tíu fundum, birtast þessi ólíku sjónarmið eins og hér á þingi og það hefur ekki náðst sátt um það til að mynda hvernig skilgreining slíkra neysluskammta gæti verið og aðrar afleiðingar af því að breyta lögum í þá átt. Hins vegar hefur það birst í gegnum fundina með þessum fjölmörgu aðilum sem þekkja vel til málaflokksins, og það hefur verið þróunin erlendis, að fara bara í að horfa á skaðaminnkun í heild sinni. Þannig að ég er að taka þennan hóp áfram. Hluti af því, eins og ég sagði í andsvari við hv. þm. Ingu Sæland, eru öll þessi skaðaminnkandi úrræði sem við verðum að fara í og horfast í augu við, eins og neyslurýmin. (Forseti hringir.) Það þekkist erlendis að vera með morfínklíník. Það er vandmeðfarið og verður að vera í höndum sérfræðinga af því að eitt (Forseti hringir.) hentar ekki öllum. Við þurfum svo heldur betur að taka þá stefnu (Forseti hringir.) að fara í skaðaminnkandi úrræði fremur en að vera að horfa á afglæpavæðingu eða afnám refsingar. Ég er ekki að koma með það mál sérstaklega inn í þingið, ef það er nægilega hreint svar.