Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

innlagnir og skaðaminnkun vegna ópíóíðafíknar.

[10:47]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Okkur berast ógnvænlegar fréttir af fjölda andláta vegna lyfjaeitrunar það sem af er liðið þessu ári. Á Íslandi gengur yfir ópíóíðafaraldur með óbærilegum fórnarkostnaði fyrir okkur öll. Lyfin eru sterk, mjög ávanabindandi og bráðdrepandi. Það sýna tölur SÁÁ svo ekki verður um villst. Síðastliðin átta ár hefur einstaklingum sem fengu lyfjameðferð við ópíóíðafíkn fjölgað úr 117 í 347 manns og eru nú tæplega fjórðungur innlagna á sjúkrahúsið. Á síðasta ári voru 36% þeirra sem lögðust inn á Vog vegna ópíóíðafíknar 25 ára og yngri. Eins og fram hefur komið hafa 35 af þeim sem hafa komið á Vog látist á fyrstu þrem mánuðum þessa árs og þau eru öll undir fimmtugu. Verði ekki gripið í taumana strax þá gætum við misst 80 einstaklinga úr ópíóíðafíkn á þessu ári. Vogur sinnti 347 einstaklingum með ópíóíðafíkn árið 2022. Samkvæmt samningi sjúkrahússins við Sjúkratryggingar Íslands fær það greitt fyrir meðferð 90 einstaklinga á ári. Mismunurinn er 257 manns. Þetta gengur augljóslega ekki upp.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvaða skaðaminnkunarúrræði hyggst hann bjóða upp á í ljósi þessarar stöðu? Hvernig ætlar hann að auka aðgengi að lyfinu Naloxon? Hefur ráðherrann íhugað að koma á fót morfínklíník, með öðrum orðum neyslurými fyrir fíkla, því í því felst augljós forvörn? Síðast en ekki síst: Hyggst hæstv. heilbrigðisráðherra beita sér fyrir því að auka framlag til Sjúkratrygginga þannig að sjúkrahúsið Vogur fái greitt fyrir þann fjölda sjúklinga sem nú þegar nýtur lyfjameðferðar vegna ópíóíðafíknar?