Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

innlagnir og skaðaminnkun vegna ópíóíðafíknar.

[10:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að taka upp þetta brýna málefni. Það er brýnt, það blasir við okkur öllum, allar vísbendingar segja okkur það. Auðvitað skiptir máli að rýna gögn og tölfræði en ég vil ítreka það sem ég sagði hér fyrr í andsvari að það þarf bara eitt tilvik til og þá þurfum við að skoða hvað þarf að gera betur og hvernig. Mér fannst hv. þingmaður draga fram öll þau atriði sem við erum að setja á dagskrá og höfum reyndar verið í samtali um að ná utan um. Varðandi samning Sjúkratrygginga við sjúkrahúsið á Vogi og SÁÁ, um þessa lífsbjargandi meðferð, viðhaldsmeðferð, þá hefur hún virkað nokkuð vel. Það er mjög athyglisvert í þeim tölum að 63% af þeim sem hafa komið inn í þá meðferð frá 2014 eru í meðferðinni áfram. Það gengur ágætlega. Það er mjög mikilvægt og það segir okkur að við eigum að tryggja þá meðferð og tryggja aðgengi að henni. Ég hef líka rætt við yfirlækninn þar að auka samstarf við Landspítalann — við erum oft að horfa á svokallaða tvígreiningu þar sem fíknisjúkdómurinn og geðsjúkdómar blandast saman og þá þarf þverfaglega teymisnálgun — um viðbragðsmeðferð, þ.e. að aðgengi að viðbragðsmeðferð verði þannig að þetta gangi tiltölulega hratt fyrir sig og það fólk komist síðan áfram í þá meðferð inn á Vog. Þetta erum við að skoða. Aðgengi að Naloxone er algjört lykilatriði, að við aukum aðgengi eins og við frekast getum alls staðar og ég er að skoða hvort við getum hreinlega komið því í lausasölu.